Bjarni Jónsson er stjórnarformaður Íslandspósts
Bjarni Jónsson er stjórnarformaður Íslandspósts
Fréttir | 25. febrúar 2021 - kl. 07:27
Pósturinn býður Arion banka í samstarf á Blönduósi

Íslandspóstur hefur boðið Arion banka upp á samstarf um samnýtingu afgreiðsluhúsnæðis Póstsins að Hnjúkabyggð 32 á Blönduósi. Bjarni Jónsson, stjórnarformaður Íslandspósts, segir að Pósturinn sé nú þegar í góðu samstarfi við fjármálastofnanir um samnýtingu húsnæðis og starfsfólks víðsvegar um landið m.a. með Landsbankanum á Skagaströnd, Sparisjóði Strandamanna á Hólmavík og Arion banka í Búðardal og Bændahöllinni í Reykjavík.

„Pósturinn getur boðið Arion banka upp á að fá inni í nýju og góðu húsnæði á Blönduósi sem hægt er að samnýta og veita þeim þar aðstöðu, hvort sem væri fyrir þeirra starfsmenn eða að okkar starfsfólk veiti fyrir þá þjónustu samkvæmt nánara samkomulagi um slíkt og sinni þjónustu beggja fyrirtækja. Við þurfum ekki að finna upp hjólið hvað samstarf varðar því Íslandspóstur og Arion banki eru nú þegar í ánægjulegu samstarfi á nokkrum stöðum á landinu,“ segir Bjarni í samtali við Húnahornið og bætir við að ef Arion banki sé ekki áhugasamur um samstarf á Blönduósi þá gætu aðrar fjármálastofnanir haft áhuga.

Arion banki ákvað nýverið að loka útibúi sínu á Blönduósi 5. maí næstkomandi og sameina það útibúinu á Sauðárkróki. Blönduósbúar þurfa því eftir þann tíma að sækja sér þjónustu bankans á Sauðárkrók. Að undanskildum einum hraðbanka verður þar með engin bankaþjónusta á Blönduósi, í fyrsta skipti í 130 ár. Blönduósingar hafa ekki tekið lokuninni vel og hefur sveitarstjórn Blönduósbæjar og Félag eldri borgara í Húnaþingi mótmæld henni harðlega. Sveitarstjórn ætlar jafnframt að endurskoða viðskipti sín við bankann.

Bjarni gerir ráð fyrir að það komi í ljós á næstu dögum hvort hreyfing komist á viðræður um samstarf Íslandspósts og Arion banka á Blönduósi. Hann telur slíkt samstarf gæti farið vel með starfsemi Póstsins og ljóst sé að það sé mikilvægt fyrir samfélagið að geta notið bæði góðrar pósts- og bankaþjónustu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga