Fréttir | 25. febrúar 2021 - kl. 13:56
Rafrænir íbúafundir um sameiningarmál

Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu boðar til tveggja rafrænna íbúafunda í mars. Sá fyrri fer fram miðvikudaginn 3. mars klukkan 20-23 og seinni fundurinn verður laugardaginn 6. mars klukkan 10-13. Á fundunum verður kynning á verkefninu, auk þess sem farið verður yfir afraksturinn af vinnu starfshópa sem fjallað hafa um stöðu málaflokka í starfsemi sveitarfélaganna.

Í kjölfar kynningarinnar gefst íbúum færi á að ræða niðurstöðurnar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi þær og sameiningu sveitarfélaganna almennt. Efnistök fundanna tveggja eru hin sömu en tilgangur þess að halda tvo fundi er að gefa sem flestum íbúum tækifæri til að taka þátt.

Á nýjum vef samstarfsnefndarinnar kemur fram að fundirnir verða rafrænir og haldnir í gegn um Zoom-fjarfundakerfið. Til að fylgjast með kynningum og taka þátt í umræðum þarf því að lágmarki nettengda tölvu með hátalara og hljóðnema. Æskilegt er að þátttakendur séu einnig með vefmyndavél svo aðrir fundarmenn sjái við hvern þeir eru að tala. Fundunum verður einnig streymt á netinu og upptökur af kynningum verða gerðar aðgengilegar á vef verkefnisins að þeim loknum.

Slóð á fundina verður auglýst á vefsvæði verkefnisins.

Nánari leiðbeiningar um hvernig hægt er að taka þátt í fundunum má finna hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga