Fréttir | 01. mars 2021 - kl. 16:02
Ullarþon - nýsköpunarkeppni á netinu
Lumar þú á mjúkri og hlýrri hugmynd?

Textílmiðstöð Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands halda Ullarþon daganna 25.-29. mars næstkomandi. Ullarþon er nýsköpunarkeppni haldin á netinu til að ýta undir nýsköpun og vöruþróun, auka verðmæti íslensku ullarinnar og þá sérstaklega verðminnstu ullarflokkanna. Verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði Landbúnaðarins.

Keppt verður í eftirfarandi flokkum:

1. Þróun á vinnslu textíls úr óunninni ull
2. Blöndun annarra hráefna við ull
3. Ný afurð
4. Stafrænar lausnir og rekjanleiki

Allir áhugasamir eru hvattir til að taka þátt. Skráning hefst í dag, 1. mars. Hægt er að taka þátt hvort heldur sem einstaklingur eða í teymi. Þátttakendur hafa aðgang að breiðum hóp leiðbeinenda á meðan Ullarþoninu stendur. Heppilegt er að fólk með ólíka kunnáttu vinni saman til að auka möguleika á lausnum!

Lokaskil á hugmyndum er þann 29. mars. Dómnefnd mun þá meta hugmyndir og tilkynna um miðjan apríl hver mun vera í topp 5 í hverjum flokki. Úrslit verða kynnt á Hönnunarmars 2021. Heildarverðmæti vinninga eru um 1.600.000 kr.

„Nú er tækifæri til að láta ljós sitt skína og taka þátt í að koma með nýjar nýskapandi lausnir sem hægt verður að nýta sem best og þar með skapa verðmæti úr ullinni,“ segir í tilkynningu.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á facebookarsíðunni Ullarþon og hér á vef Textílmiðstöðvarinnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga