Mynd: hunvetningur.is / Elín og Rán
Mynd: hunvetningur.is / Elín og Rán
Fréttir | 04. mars 2021 - kl. 12:40
Helsta áskorunin að byggja upp traust

Íbúar í Austur-Húnavatnssýslu telja að ein helsta áskorunin við mögulega sameiningu sveitarfélaganna sé að byggja upp traust og auka trú íbúa á að hag þeirra verði betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi, að þjónusta nái til allra íbúa og að áhrif jaðarbyggða verði tryggð. Sameining sveitarfélaga geti ekki farið þannig fram að eitt sveitarfélag yfirtaki önnur.

Þetta er meðal þess sem fram kom á rafrænum íbúafundi um sameiningarmál í gærkvöldi. Þá var varað við því að lofa of miklu í tengslum við mögulega sameiningu, eða halda því fram að allt verði óbreytt. Íbúar leggja jafnframt áherslu á að einkenni, menning og mannlíf hvers samfélags verði varðveitt. Þannig verði íbúar áfram Blönduósingar, Skagstrendingar og Vatnsdælingar svo dæmi sé tekið.

Mikil umræða var um fræðslumál og áhersla lögð á að skólar svæðisins haldi sínum sérkennum og geti veitt þjónustu í samræmi við þarfir á hverjum stað. Ein viðamesta breytingatillagan sem kynnt var á fundinum er möguleg sameining Blönduskóla og Húnavallaskóla og var mikil umræða um þá tillögu. Mikil áhersla var lögð á að sameining skóla, væri raunverulega sameining skóla en ekki yfirtaka stærri skóla á þeim minni. Afar mikilvægt væri að vinna að verkefninu í samstarfi við starfsfólk og foreldra.

Tækifæri svæðisins eru talin liggja í auknum slagkrafti til atvinnuþróunar og hagsmunagæslu gagnvart ríki og Alþingi, sérstaklega í samgöngumálum. Væntingar eru um að sameiningarframlög hjálpi svæðinu að verða fjárhagslega sterkara og til að efla stjórnsýslu og þjónustu. Þá töldu þátttakendur í fundinum að mikil tækifæri felast í aukinni áherslu á umhverfis- og skipulagsmál og uppbyggingu á Húnavöllum.

Sjá nánari umfjöllun á vef sameiningarverkefnisins, www.hunvetningur.is.

Elín Elísabet og Rán Flygenring myndlýstu fundinum í gær og má sjá teikningar þeirra hér. Myndin sem fylgir þessari frétt er á meðal þeirra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga