Fréttir | 10. mars 2021 - kl. 15:59
Sveitarstjórnir hvattar til þess að nýta sér ekki heimild í lögum

Á rafrænum íbúafundum um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu komu fram spurningar um hvað gerist ef íbúar í einu sveitarfélagi fella sameiningartillöguna, sem stefnt er að því að kjósa um 5. júní í sumar. Á fundi samstarfsnefndarinnar í síðustu viku var fjallað um málið og ákvað nefndin að leggja það til við sveitarstjórnir að þær lýstu því yfir, áður en til sameiningarkosninga kemur, að þær myndu ekki nýta svokallaða 2/3 heimild í sveitarstjórnarlögunum, komi til þess að sameiningartillagan verði samþykkt af íbúum í hluta sveitarfélaganna, nema að undangengnu samráði við íbúa.

Heimildin sem um ræðir er í 2. málsgrein 120. greinar sveitarstjórnarlaganna en þar segir: „Sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga hlýtur samþykki meiri hluta kjósenda er heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga þótt tillaga samstarfsnefndar hljóti ekki samþykki meiri hluta kjósenda í öllum sveitarfélögunum sem að tillögunni stóðu, enda sé um að ræða a.m.k. 2/ 3 sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/ 3 hlutar íbúa á svæðinu.“

Í því felst að hafni íbúar einhvers sveitarfélaganna tillögu um sameiningu í kosningum, munu aðrar sveitarstjórnir ekki taka ákvörðun um sameiningu þeirra sveitarfélaga án þess að hafnar verði nýjar sameiningarviðræður og kosið að nýju. Samstarfsnefnd tekur fram að vilji einhverjar sveitarstjórnanna láta kjósa aftur um sameiningu sé hægt að byggja á þeirri vinnu og þeim gögnum sem þegar hafa verið unnin og að undirbúningur tillögu og kosninga þurfi því ekki að taka langan tíma.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga