Fréttir | 05. apríl 2021 - kl. 15:13
Spánskir fyrir sjónir Kormáks Hvatar
Frá Kormáki Hvöt

Knattspyrnulið Kormáks Hvatar hefur undanfarin ár leitað sér liðsstyrks á Spáni með mjög góðum árangri. Skemmst er að minnast landnema á borð við markmanninn Miguel Martinez Martinez, sem enn veldur framherjum fjórðu deildar enn martröðum; varnarvitans Domi sem kom gríðarlega sterkur inn fyrir nokkrum árum og hefur nú ljáð Tindastóli krafta sína og svo sjálfs Marka-Minguez sem sló öll skorunarmet og þandi netmöskvana á þriðja tug sinna sumarið sem hann dvaldi nyrðra.

Nýr árgangur spánskra er nú væntanlegur. Gríðarlegar væntingar eru gerðar til þríeykisins frá Íberíu, en allir hafa þeir spilað undanfarið í þriðju efstu deild þarlendis, sem er deild ofar en flestir þeirra sem hingað hafa áður komið.

Markmaðurinn Guillerme Yepes Moreno (Guille) þykir fimur í fótunum eins og allir góðir nútíma markmenn, ásamt því að vera gríðarlega öruggur í háloftunum. Sannkölluð gullblanda þar á ferð. Ekkert lið kemst ólaskað úr fjórðu deild án góðs markmanns, svo það er næsta víst að Guille verði lykilmaður í vegferð Kormáks Hvatar að úrslitakeppninni. Guille kemur frá liði Minerva í 3. deild Spánar.

Varnar og miðjumaðurinn Jose Corbalán Álvarez (Jose) færir liðinu stóíska ró og jafnvægi á milli varnar og sóknar. Hann getur ekki hugsað sér að tapa boltanum og vinnur gríðarlega vel fyrir sitt lið, en fróðir menn segja hann einnig mjög stöðuvísan en um leið agressívan í sínum leik. Jose er leikmaður sem verður mjög spennandi að fylgjast með í sumar. Jose kemur frá liði Fortuna CF í Preferentedeild Spánar.

Sóknarmaðurinn George Răzvan Chariton (Jorge) er af rúmensk/spánsku bergi brotinn. Honum er lýst sem algerum gammi í framlínunni og getur leyst allar stöður, með góða vél og næmt markanef. Hann mun án vafa ógna vörnum andstæðinganna með hraða sínum og krafti. Jorge kemur frá liði El Palmar í 3. deild Spánar.

Kormákur Hvöt leggur í leit sinni að liðsstyrk ekki minni áherslu á heilsteypta og vandaða persónuleika sem auðga félagsandann um leið og þeir sinna sínu á vellinum. Þessi þrjú púsl í heildarmyndina eru væntanleg til landsins innan skamms, enda styttist í Íslandsmót.

Áfram Kormákur Hvöt!

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga