Hvítserkur er eitt þeirra verkefna sem fengu úthlutað.
Hvítserkur er eitt þeirra verkefna sem fengu úthlutað.
Fréttir | 07. apríl 2021 - kl. 11:08
Undrun og vonbrigði yfir lágu framlagi til uppbyggingu innviða á Norðurlandi vestra

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra lýsir yfir undrun og vonbrigðum yfir lágu framlagi úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á Norðurlandi vestra. Af 86 verkefnum sem skilgreind eru í áætluninni eru aðeins þrjú á Norðurlandi vestra sem fá samtals 1% af þeirri heildarfjárhæð sem úthlutað er árin 2021-2023.

Á fundi stjórnar í gær var lagt fram yfirlit yfir skiptingu fjármuna úr úthlutunum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Verkefnin á Norðurlandi vestra sem eru í landsáætluninni eru á Hegranesi og Örlygsstöðum í Skagafirði og Hvítserkur í Húnaþingi vestra.

Framkvæmdastjóra samtakanna var falið að óska eftir rökstuðningi fyrir þessari ráðstöfun og jafnframt að óska eftir fundi með umhverfis- og auðlindaráðherra ásamt formanni verkefnisstjórnar um stefnumarkandi áætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Blönduósbær hefur einnig lýst yfir miklum vonbrigðum með úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en sveitarfélagið var nýverið synjað um styrk vegna uppbyggingar ferðamannaaðstöðu við Hrútey. Verkefnið hlaut viðurkenningu og styrk úr sjóðnum árið 2018 vegna umsóknar 2017 en síðan þá hefur öllum umsóknum um styrki verið hafnað. Blönduósbær ætlar að óska eftir rökstuðningi fyrir ítrekuðum synjunum umsókna til verkefnisins.

Sjá nánari upplýsingar um úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2021 hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga