Samningsaðilar við rafræna undirritun samningsins. Mynd: ssnv.is
Samningsaðilar við rafræna undirritun samningsins. Mynd: ssnv.is
Fréttir | 07. apríl 2021 - kl. 15:37
Samningur um áfangastaðastofu Norðurlands

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur undirritað samning við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra um stofnun áfangastaðastofu á Norðurlandi. Sagt er frá þessu á vef SSNV.

„Með undirritun samningsins eru orðnar til áfangastaðastofur í öllum landshlutum að undanskildu höfuðborgarsvæðinu en stofnun áfangastaðastofu þar er í undirbúningi. Þar með er leidd til lykta vinna við uppbyggingu stoðkerfis ferðaþjónustu á landsbyggðinni sem hófst í raun með útgáfu áfangastaðaáætlana fyrir alla landshluta árið 2018. Áfangastaðastofur hafa það að meginmarkmiði að stuðla að jákvæðum framgangi svæðisbundinnar ferðaþjónustu með framkvæmd áfangastaðaáætlunar fyrir viðkomandi landsvæði og tryggja að sú áætlun sé í samræmi við m.a. aðra lögbundna áætlanagerð og aðal- og deiliskipulag viðkomandi svæði,“ segir á vef SSNV.

Þar kemur einnig fram að landshlutasamtökin tvö á Norðurlandi hafi um árabil átt farsælt samstarf við Markaðsstofu Norðurlands. Markaðsstofan muni í framhaldi af fyrrgreindum samningi taka að sér hlutverk áfangastaðastofu fyrir Norðurland.

 

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga