Fréttir | 13. apríl 2021 - kl. 09:27
Kosning um Fugl ársins 2021 er komin á flug

Fuglavernd ætlar að fagna vorkomunni með kosningu á Fugli ársins 2021 og verður sigurvegarinn kynntur með fjaðrafoki og látum á sumardaginn fyrsta. Atkvæði eru tekin að streyma inn eins og farfuglar að vori og er strax ljóst að um spennandi kosningu verður að ræða.

Þeir 20 fuglar sem keppa um titilinn í ár hafa nú flestir orðið sér úti um kosningastjóra en rjúpa, stari og svartþröstur flögra þó enn í lausu lofti án sérstakra talsmanna. Það er fjölbreyttur og fagur hópur fólks úr öllum áttum og af öllum aldri sem hefur tekið að sér að stýra oddaflugi hinna fuglanna í keppninni. Margir hafa komið upp samfélagsmiðlasíðum fyrir fuglana sína sem Fuglavernd hvetur fólk eindregið til að fylgja.

Á vefsíðu keppninnar á Fuglavernd.is má finna upplýsingar um keppendur, kosningakerfið og hlekk á kosningaeyðublað. Þar er einnig að finna upplýsingar um kosningastjóra fuglanna og hlekki á samfélagsmiðlasíðurnar sem þeir nota.

Kosningin stendur til klukkan 18 þann 18. apríl næstkomandi og eru fuglavinir hvattir til að taka þátt og gefa sínum fugli byr undir báða vængi.

Tengd frétt:

Leit Fuglaverndar að Fugli ársins 2021 er hafin

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga