Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Blönduós. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 14. apríl 2021 - kl. 13:38
Fleiri ruslatunnur til að halda bænum snyrtilegum

Menningar-, tómstunda- og íþróttanefnd Blönduósbæjar hefur sent sveitarstjórn og sveitarstjóra Blönduósbæjar nokkrar ábendingar um það sem betur megi fara í umhverfi sveitarfélagins. Ruslatunnur eru nefndar og segir nefndin að fjöldi þeirra sé verulega ábótavant innan bæjarfélagsins og bendir á að mikilvægt sé að hafa ruslatunnur með reglulegu millibili til að halda bænum snyrtilegum.

Viðhald og myndun göngustíga bæjarfélagsins er annað atriði sem nefnt er. Nefndin segir að einmitt á tímum sem þessum sé mikilvægt að stuðla að hreyfingu íbúa með því að hafa gott viðhald og aðgengi að gönguleiðum og stígum. Nefndin hvetur sveitarstjórn til að leggja áherslu á gott viðhald göngustíga í sveitarfélaginu. Þá vill nefndin sjá gönguleiðir og hjólreiðastíga kortlagða og aðgengilega fyrir bæði heimamenn og ferðalanga sem eiga leið um Blönduósbæ. Það myndi bæði stuðla að frekari hreyfingu heimamanna og vera góð afþreying fyrir þá sem heimsækja bæjarfélagið.

Sveitarstjórn tekur undir ábendingar nefndarinnar og hefur óskað eftir því að fá framkvæmda- og verkáætlun sumarsins frá eigna- og framkvæmdasviði og þjónustumiðstöð inn á næsta fund sveitarstjórnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga