Mynd: ssnv.is
Mynd: ssnv.is
Fréttir | 14. apríl 2021 - kl. 13:43
Fjölsóttur samráðsfundur um fjarskiptamál

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið stóð í gær fyrir samráðsfundi um fjarskiptamál í samvinnu við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Fundurinn var liður í vinnu ráðuneytisins við gerð hvítbókar um fjarskiptamál í tengslum við nýja fjarskiptaáætlun sem nú er í vinnslu. Á vef SSNV kemur fram að fundurinn var fjölsóttur og sköpuðust á honum góðar umræður um stöðu fjarskiptamála í héraðinu og þau brýnu verkefni sem þar standa fyrir dyrum.

Á vef SSNV kemur fram að á fundinum fór Ottó Winther verkefnisstjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu yfir vinnuferli fjarskiptaáætlunar, Jón Björn Hákonarson formaður fjarskiptaráðs fjallaði um þann árangur sem náðst hefur í fjarskiptamálum síðustu ár og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. 

Jafnframt héldu erindi þau Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir Sveitarstjóri í Húnaþingi vestra og Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri sveitarfélagsins Skagafjarðar. Ragnheiður Jóna fjallaði um þær aðstæður sem sköpuðust í fjarskiptamálum í óveðrinu í desember 2019 og mikilvægi þess að úrbætur verði gerðar svo viðlíka aðstæður skapist ekki í framtíðinni. Sigfús Ingi fjallaði um þróun háhraðatenginga, verkefnið Ísland ljóstengt og þau verkefni sem enn standa eftir með tilliti til ljósleiðaravæðingar í sveitarfélaginu.

Í kjölfar erinda var fundarmönnum skipt upp í vinnuhópa þar sem fjallað var um  nýlegar aðgerðir sem hafa haft góð/jákvæð áhrif í landshlutanum, helstu áskoranir í fjarskiptamálum innan landsvæðisins og hvaða tækifæri er til framfara. Niðurstöður umræðna hópanna verða innlegg inn í vinnu við gerð fjarskiptaáætlunar.

„Ljóst er að áhugi á málaflokknum er mikill enda hefur mikilvægi fjarskipta og gangatenginga aukist harðbyri undanfarin ár,“ segir á vef SSNV.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga