Gedduhöfði, horft til suðurs í átt að vegi. Mynd: hunavatnshreppur.is
Gedduhöfði, horft til suðurs í átt að vegi. Mynd: hunavatnshreppur.is
Fréttir | 29. apríl 2021 - kl. 15:49
Reisa á gangnamannaskála við Gedduhöfða

Húnavatnshreppur birtir auglýsingu um skipulagsmál á vef sínum en breyta á aðalskipulagi og gera deiliskipulag fyrir nýtt 4,9 hektara afþreyingar- og ferðamannasvæði. Reisa á nýjan gangnamannaskála við Gedduhöfða á Grímstunguheiði. Skálinn verður allt að 500 fermetrar að stærð með gistipláss fyrir 60 manns og hesthús fyrir um 70 hross.  

Í auglýsingu Húnavatnshrepps segir að nýr skáli muni þjóna gangnamönnum en gæti nýst breiðari hópi svo sem ferðamönnum. Nýi skálinn er að koma í stað Öldumóðuskála og Álkuskála sem eru mjög illa farnir.

Við Galtará er Galtarárskáli, gangnamannaskáli í eigu Húnavatnshrepps og sveitarfélagsins Skagafjarðar með gistirými fyrir 36 manns og aðstöðu fyrir hross. Við Ströngukvísl er gangnamannaskáli í eigu Húnavatnshrepps og sveitarfélagsins Skagafjarðar með sambyggðu hesthúsi og gistirými fyrir um 34 manns og er hann mikið notaður vegna hestaferða.

Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar er að bæta aðstöðu og nýtingu svæðisins. Nýr gagnamannaskáli mun þjóna gangnamönnum en gæti nýst breiðari hópi svo sem ferðamönnum. Skálinn tengist vel við núverandi vegakerfi og reiðleiðum, staðsetningin er góð sé tekið tillit til staðsetningu annarra skálasvæða.

Nánari upplýsingar má finna á vef Húnavatnshrepps.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga