Liya og Valdimar sveitarstjóri. Ljósm: blonduos.is
Liya og Valdimar sveitarstjóri. Ljósm: blonduos.is
Fréttir | 29. apríl 2021 - kl. 16:16
Nýr rekstraraðili tjaldsvæðisins á Blönduósi

L&E ehf. er nýr rekstraraðili tjaldsvæðisins í Brautarhvammi á Blönduósi. Félagið er í eigu Liyu Yirga Behaga og Guðjóns Ebba Guðjónssonar sem eru einnig eigendur veitingastaðarins Teni á Blönduósi. Blönduósbær auglýsti í desember síðastliðnum eftir samstarfsaðila um rekstur tjaldsvæðisins en það hefur verið í umsjón Glaðheima undanfarin ár.

Tjaldsvæðið er vinsælt og stutt er í alla þjónustu, s.s. sundlaug, leiksvæði, veitingarstaði og verslun. Svæðið er í fallegu umhverfi og rennur Blanda neðan við svæðið og stutt er einnig í útivistarsvæðið í Hrútey.

Á vef Blönduósbæjar kemur fram að einnig muni verða starfrækt upplýsingamiðstöð í gamla Kaupfélagshúsinu sem staðsett er á tjaldsvæðinu. „Gert er ráð fyrir að fjöldi manns ferðist innanlands í sumar og nýir rekstraraðilar byrjaðir að undirbúa móttöku ferðalanga,“ segir á vefnum þaðan sem meðfylgjandi mynd er fengin.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga