Í sýndarveruleika
Í sýndarveruleika
Fréttir | 30. apríl 2021 - kl. 11:25
Sýndarveruleiki í Vörusmiðju Biopol

Vörusmiðja Biopol á Skagaströnd er þátttakandi í alþjóðlegu samstarfsverkefni sem heitir Digi2market. Því er ætlað að taka á ýmsum áskorunum sem fyrirtæki á jaðarsvæðum kunna að glíma við, svo sem smæð markaðar, fjarlægðar frá markaði og einangrun. Vörusmiðjan hefur unnið að efnissköpun fyrir markaðssetningu með 360 gráðu myndum.

Sagt er frá þessu á vef Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra en þau eru þátttakendur í samstarfsverkefninu og hafa veitt fyrirtækjum á svæðinu aðstoð. Vörusmiðjan á Skagaströnd er ekki í alfaraleið og væntanlegir viðskiptavinir gætu haft áhuga á að skoða aðstöðuna áður en til leigu kæmi, til að tryggja að aðstaðan og tæki til framleiðslu myndu fullnægja þörfum þeirra. Það gæti reynst einhverjum erfiðara að koma við sökum fjarlægðar. Gagnvirkur sýndarveruleiki gerir fólki kleyft að skoða aðstöðuna heiman frá sér. Í þessari sýndarveruleikalausn er hægt að sjá hvernig aðstaðan lítur út, hvaða framleiðslutæki eru á staðnum og hver er framleiðslugeta hvers tækis.

Vörusmiðjan er 104 fermetra aðstaða til leigu fyrir þróunarvinnu, framleiðslu, námskeiðahald og til einkanota. Aðstaðan er vel til þess fallin að framleiða og þróa vöru. Allur aðbúnaður er hannaður með það í huga að hann stuðli að góðu og heilnæmu vinnuumhverfi fyrir framleiðendur.

Sjá nánari umfjöllun á vef SSNV.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga