Arion banki á Blönduósi
Arion banki á Blönduósi
Fréttir | 05. maí 2021 - kl. 11:21
Breyting á bankaþjónustu á Blönduósi

Í dag er síðasti opnunardagur útibús Arion banka á Blönduósi. Frá og með morgundeginum verður engin bankaþjónusta á Blönduósi, í fyrsta skipti í 130 ár. Arion banki ákvað fyrr í vetur að sameina útibú bankans á Blönduósi við útibúið á Sauðárkróki. Félag eldri borgara í Húnaþingi og sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu hafa mótmælt harðlega ákvörðun bankans og lýst yfir miklum vonbrigðum með skerta fjármálaþjónustu við íbúa, fyrirtæki og ferðamenn.

Í tilkynningu sem bankinn sendi viðskiptavinum sínum á Blönduósi í febrúar síðastliðinni sagði að undanfarin ár hafi verið gerðar breytingar á útibúaneti bankans til að aðlaga það að nýrri nálgun í bankaþjónustu þar sem lögð sé áhersla á gott aðgengi að stafrænum þjónustuleiðum. Liður í þessum breytingum sé að sameina útibúið á Blönduósi við útibú bankans á Sauðárkróki.

Áfram verður alhliða hraðbanki á Blönduósi þar sem hægt verður að taka út og leggja inn seðla greiða reikninga, enduropna PIN númer og millifæra. Hraðbankinn verður fyrst um sinn staðsettur í núverandi húsnæði að Húnabraut 5.

Pósturinn bauð Arion banka í samstarf
Í kjölfar ákvörðunar Arion banka um að loka útibúin á Blönduósi bauð Íslandspóstur bankanum upp á samstarf um samnýtingu afgreiðsluhúsnæðis Póstsins að Hnjúkabyggð 32 á Blönduósi. Bjarni Jónsson, stjórnarformaður Íslandspósts, sagði í samtali við Húnahornið að Pósturinn væri nú þegar í góðu samstarfi við fjármálastofnanir um samnýtingu húsnæðis og starfsfólks víðsvegar um landið m.a. með Landsbankanum á Skagaströnd, Sparisjóði Strandamanna á Hólmavík og Arion banka í Búðardal og Bændahöllinni í Reykjavík. Arion banki hafði ekki áhuga á slíku samstarfi og stóð fast við ákvörðun sína að loka útibúinu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga