Mynd: blonduos.is
Mynd: blonduos.is
Fréttir | 06. maí 2021 - kl. 10:21
Götur sópaðar á Blönduósi

Vorboðinn ljúfi, götusópurinn, er mættur á Blönduós og byrjaður að sópa sand, ryk og drullu af götunum eftir veturinn. Á vef Blönduósbæjar eru íbúar hvattir til að leggja ekki ökutækjum á götur á meðan sópað er þannig að hægt sé að sópa meðfram öllum kantsteinum. Margir íbúar hafa tekið sig til og sópað lausu efni af innkeyrslum og gangstéttum við húsin sín og hjálpa þannig til við hreinsum bæjarins.

„Æskilegt er að möl með salti sé ekki sópað á graseyjar, heldur út á götu. Það er til mikillar fyrirmyndar og hvatning til annarra að taka til hendinni og sópa í kringum sig,“ segir á vef Blönduósbæjar.

Sópað í Húnaþingi vestra í næstu viku
Götur á Hvammstanga og Laugarbakka verða sópaðar í næstu viku. Í tilkynningu á vef Húnaþings vestra segir að gangstéttar verði smúlaðar áður en sópurinn mætir á svæðið. Íbúar eru hvattir til þess að sópa og hreinsa í kringum lóðir sínar áður en sópurinn kemur. Einnig er mikilvægt að ökutæki séu ekki geymd í götum þegar sópurinn verður á ferðinni svo hægt sé að hreinsa allar götur vel.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga