Jóhannes með áhaldið góða og Kári Kárason framkvæmdastjóri Vilko við hlið hans. Ljósm: Jón Sigurðsson
Jóhannes með áhaldið góða og Kári Kárason framkvæmdastjóri Vilko við hlið hans. Ljósm: Jón Sigurðsson
Júlíus Líndal á gröfunni. Ljósm. Jón Sigurðsson
Júlíus Líndal á gröfunni. Ljósm. Jón Sigurðsson
Frá skóflustungunni. Ljósm: Jón Sigurðsson
Frá skóflustungunni. Ljósm: Jón Sigurðsson
Yfirlitsmynd af svæðinu sem á að byggja
Yfirlitsmynd af svæðinu sem á að byggja
Fréttir | 09. maí 2021 - kl. 20:15
Skóflustunga tekin að nýju iðnaðarhúsnæði á Blönduósi

Laugardaginn 8. maí tók Jóhannes Torfason, stjórnarformaður Protis og Vilko, fyrstu skóflustungu að nýju húsi á Ægisbraut 2 á Blönduósi. Stefnt er að því að byggja um 1.200 fermetra hús, en í fyrsta áfanga verða byggðir um 440 fermetrar, ætlaðir fyrir sérhæfða matvæla- og heilsuvöruframleiðslu. Byggingakostnaður er áætlaður um 100 milljónir króna

Í kjölfar kaupa Vilkó á heilsuvöruframleiðslu Protis af Kaupfélagi Skagfirðinga um síðustu áramót, hófst ferli þar sem að koma auk Vilkó, Protis, Náttúrusmiðjan, Ámundakinn og nú síðast Food Smart.

Í fyrsta áfanga verður heilsuvörufamleiðsla Protis flutt í húsið og síðan fleiri framleiðslueiningar sem nú eru á vegum Náttúrusmiðjunnar og Vilkó. Þá verður einnig lögð áhersla á að fá fleiri frumkvöðla og fyrirtæki til að hefja starfsemi í húsinu. Fyrst um sinn verður allur rekstur í nánum tengslum við Vilkó.

Það er Magnús Ingvarsson hjá Verkís verkfræðistofu sem er aðalhönnuður hússins, en Atli Arnórsson á verkfræðistofunni Stoð hannar vökvalagnir og Sigurgeir Jónasson hjá Átaki hannar raflagnir. Húsið er keypt frá Límtré/Vírnet og Trésmiðjan Stígandi annast sökkulvinnu og reisir það, þá hefur verið samið við Júlíus Líndal um jarðvegsskipti og lóðarvinnu.

Jóhannes tók fyrstu skóflustunguna með fornu áhaldi, ræsaspaða, sem þekkt var í sveitum landsins á fyrrihluta síðustu aldar. Viðstaddir voru fulltrúar Blönduósbæjar og þeirra fyrirtækja sem koma að þessu verkefni, og að lokinni athöfn þáðu allir léttar hádegis veitingar í boði Vilkó.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga