Fréttir | 11. maí 2021 - kl. 22:35
Boðað til íbúafunda um sameiningartillögu

Íbúafundir til kynningar á tillögu samstarfsnefndar um sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar hafa verið boðaðir á næstu vikum. Kosið verður um tillöguna 5. júní næstkomandi. Fundirnir verða haldnir í öllum sveitarfélögunum en þeim verður einnig streymt og geta þátttakendur sent spurningar rafrænt til samstarfsnefndarinnar.

Íbúafundir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

Fellsborg á Skagaströnd þriðjudaginn 18. maí kl. 20:00-21:30.

Félagsheimilinu á Blönduósi miðvikudaginn 19. maí kl. 20:00-21:30.

Húnavöllum í Húnavatnshreppi mánudaginn 31. maí kl. 20:00-21:30.

Skagabúð í Skagabyggð þriðjudaginn 1. júní kl. 20:00-21:30.

Íbúum er frjálst að sækja fundi á þeim stöðum og tímasetningum sem þeim best henta. Í ljósi samkomutakmarkana er mikilvægt að vita hve margir íbúar verða á hverjum fundi. Þeir sem mæta á fundina þurfa að skrá sig fyrirfram hér.

Fundirnir verða sendir út rafrænt á Zoom og verður streymt Facebook síðunni Húnvetningur. Þátttakendur í fundarsal og þeir sem fylgjast með rafrænt geta sent spurningar til samstarfsnefndar í gegnum samráðsforritið menti.com.

Á menti.com er hægt að gefa spurningum annarra atkvæði til að færa þær framar í röðinni eða skrá inn nýja spurningu. Einnig verður boðið upp á hnitmiðaðar spurningar úr sal.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga