Fréttir | 15. maí 2021 - kl. 20:18
Grátlegt tap í fyrsta leik

Fyrsta umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild D-riðill, hófst í dag á fjórum leikjum. Þar á meðal var leikur Léttis og Kormáks/Hvatar sem hófst klukkan 14 á Hertz vellinum í Reykjavík. Leikurinn var stórskemmtilegur og spennandi. Léttismenn mættu einbeittir til leiks og skoruðu fyrst tvö mörkin en Kormákur/Hvöt náði að minnka muninn áður en flautað var til hálfleiks með marki frá Akil de Freitas. Staðan 2-1 í hálfleik fyrir Létti.    

Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en lið Kormáks/Hvatar þó ívið sterkara. Það var því gegn gangi leiksins er Léttir skoraði þriðja mark sitt og komst í 3-1. Kormákur/Hvöt hélt áfram að spila góðan fótbolta og uppskar að lokum mark er Bouna Dieye kom boltanum í netið en lengra komust þeir ekki og endaði leikurinn 3-2 fyrir Létti.

Kormákur/Hvöt var 51% með boltann í leiknum og Léttir 49%. Sóknir Kormáks/Hvatar urðu 82 og þar af voru 49 þeirra hættulegar sóknir. Sóknir Léttis urðu 69 og þar af 35 hættulegar. Kormákur/Hvöt átti sjö skot á mark í leiknum og þrjú skort framhjá eða yfir. Léttir átti átta skot á markið og þrjú skot yfir eða framhjá.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga