Mynd: rannis.is
Mynd: rannis.is
Fréttir | 28. maí 2021 - kl. 19:44
Skúnaskrall og Handbendi fá styrk úr Barnamenningarsjóði Íslands

Skúnaskrall, barnamenningarhátíð Norðurlands vestra og Handbendi brúðuleikhús eru á meðal þeirra sem fengu úthlutað styrk úr Barnamenningarsjóði. Í dag var tilkynnt um úthlutun úr sjóðnum sem veitir styrki til barnamenningar í þriðja sinn frá stofnun sjóðsins. Sjóðurinn styrkir 37 metnaðarfull verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 90 milljónir króna. Alls bárust 113 umsóknir og var sótt um rúmlega fjórfalda þá upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar eða rúmar 373 milljónir króna.

Skúnaskrall, barnamenningarhátíð Norðurlands vestra fær úthlutað 5 milljónum króna. Umsækjandi er Auður Þórhallsdóttir og eru Samtök sveitarfélag á Norðurlandi vestra samstarfsaðilar um hátíðina, sem fer fram víðsvegar í landshlutanum frá 14.- 24. október. Dagskrána prýða fjölbreyttir listviðburðir, listanámskeið og listavinnustofur og listviðburðir. Áhersla verður lögð á fjölbreytni í dagskrá og gott aðgengi ólíkra hópa. Meginreglan er að aðgangur sé ókeypis og veiti því öllum börnum og ungmennum á Norðurlandi vestra tækifæri til að upplifa og vinna að fjölbreyttri listsköpun.

Handbendi brúðuleikhús fær úthlutað 4,3 milljónum til verkefnisins Listaklasi æskunnar en um er að ræða þróun og rekstur listaklasa ungmenna í einni af endurnýjuðum iðnaðarbyggingum á Hvammstanga. Verkefnið samanstendur af þremur meginþáttum; faglegum listsýningum og gjörningum, fjölbreyttum námskeiðum fyrir listaþyrst ungmenni leidd af atvinnufólki í listum auk þess sem boðið verður upp á opið skapandi rými fyrir ungt fólk til að hittast og vinna að eigin verkefnum. Samstarfsaðilar Handbendis um verkefnið eru Bakki Studios og Húnaklúbburinn.

Sjá nánar um úthlutun styrkja úr Barnamenningarsjóði Íslands hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga