Svanhildur Pálsdóttir
Svanhildur Pálsdóttir
Fréttir | 07. júní 2021 - kl. 13:15
Prjónagleðin haldin í fimmta sinn á Blönduósi

Prjónagleðin verður haldin á Blönduósi í fimmta sinn um næstu helgi. Markmið hennar er að sameina prjónafólk og skapa því vettvang til þess að hittast og miðla prjónasögum, nýjum hugmyndum og aðferðum, gömlum hefðum og síðast en ekki síst prjónagleðinni í öllum sínum fjölbreytileika.

Á Prjónagleðinni er boðið upp á fjölbreytt úrval námskeiða og fyrirlestra auk ýmissa viðburða sem allir tengjast prjónaskap og garni á einhvern hátt. Á hátíðinni er markaðstorg þar sem m.a. handlitarar, garnframleiðendur, prjónaverslanir, handverksfólk og hönnuðir sýna og selja spennandi vörur fyrir prjónalífið. Í tengslum við hátíðina ár hvert er haldin hönnunar- og prjónasamkeppni, þar sem vegleg verðlaun eru í boði.

Prjónagleðin fær góðar viðtökur hvarvetna
Svanhildur Pálsdóttir er viðburða- og markaðsstjóri Prjónagleðinnar. Hún er úr Skagafirði og hefur mjög mikinn áhuga á viðburðar- og verkefnastjórnun og talsverða reynslu af slíku. Hún er menntaður textílkennari en átti og rak Hótel Varmahlíð í 12 ár og snerti varla prjónana á meðan á því ævintýri stóð. Svanhildur á þrjú uppkomin börn og býr með bónda sínum á Stóru Ökrum, þar sem hún stundar garðyrkju og hænsnarækt til heimilisins þegar hún má vera að fyrir prjónaskapnum.

„Við erum bjartsýnar á þátttökuna í Prjónagleðinni um næstu helgi, hún fær góðar viðtökur hvarvetna og við finnum fyrir miklum áhuga. Skráningar á námskeið hafa gengið vel og sala á armböndum fer vel af stað,“ segir Svanhildur þegar hún er spurð að því hvernig líti út með þátttöku í Prjónagleðina í ár. „Ég vonast innilega til þess að allir þeir sem áhuga hafa á prjónaskap hér í héraði sem og á Norðurlandi vestra öllu taki þátt í gleðinni með okkur og styðji við þennan einstaka viðburð með því að mæta. Prjónagleðin er fyrir alla sem njóta þess að prjóna, hvort sem þeir eru byrjendur eða lengra komnir. Við eigum öll þetta sameiginlega áhugamál og stundum það á okkar forsendum, hvert og eitt,“ segir Svanhildur og hvetur alla prjónara að kynna sér dagskrá Prjónagleðinnar og athuga hvort þeir finna ekki eitthvað sem höfði til þeirra.     

Frábær þátttaka í hönnunar- og prjónasamkeppninni
Hönnunar- og prjónasamkeppnin er ómissandi þáttur Prjónagleðinnar og að þessu sinni var verkefnið „vesti“ og þemað „áferð í náttúru íslands“. Alls skiluðu sér 20 vesti í keppnina, sem er alveg frábært, að sögn Svanhildar. Þriggja manna dómnefnd mun leggja mat á vestin og úrslitin verða kynnt á Garntorginu á laugardaginn klukkan 14. Verðlaunin eru glæsileg að vanda og eru gefin af Ístex, Prima, Ísgel, Kidka, 1238 - Baráttan um Ísland og Jóhönnu Pálmadóttur.

Gengið ljómandi vel að fá fólk til liðs við Prjónagleðina
Aðspurð hvernig hafi gengið að skipuleggja hátíðina í ár, í ljósi aðstæðna, segir Svanhildur að það hafi í sjálfu sér gengið ágætlega, en fókusinn var kannski ekki alltaf upp á það besta fyrr en það lá fyrir að hægt yrði að halda hátíðina í ár. „Það er mjög skrítið og stundum ómarkvisst að undirbúa viðburð sem maður veit ekki 100% hvort verður haldinn. En þetta smellur allt saman á endanum, þó svo að fyrirvarinn á ýmsu sé skemmri en maður vildi. Við erum að minnsta kosti með mjög áhugaverða og fjölbreytta dagskrá í boði sem vonandi höfðar til stórs hóps prjónafólks.“

Svanhildur segir að það hafi gengið ljómandi vel að fá fólk til liðs við Prjónagleðina, hvort sem um er að ræða kennara, fyrirlesara eða samstarfsaðila. „Það stendur auðvitað misjafnlega á hjá fólki eins og gengur og gerist en það taka okkur allir frábærlega vel og eru allir af vilja gerðir.  Það eru t.d. margir kennarar sem ekki komust til okkar í ár sem vilja ólmir kenna hjá okkur á næsta ári. Þeir sem á annað borð hafa áhuga á prjónaskap og lifa og hrærast í þessum heimi vilja taka þátt og koma að því að gera hátíðina fjölbreytta, áhugaverða og líflega eins og sjá má á þeim viðburðum sem verða í boði að þessu sinni,“ segir Svanhildur og bætir við að Garntorgið verði einnig óvenju stórt en yfir 20 söluaðilar muni selja þar garn og aðrar bráðnauðsynlegar vörur fyrir prjónafólk.

Áhersla á að hátíðin sé heimilisleg og notaleg
En hver er hápunktur Prjónagleðinnar að mati Svanhildar? „Veistu að ég get eiginlega ekki svarað því. Í mínum huga er Prjónagleðin öll eins og hún leggur sig hápunktur samkvæmislífsins í prjónaheiminum hér á Íslandi ef svo mætti segja. Viðburðirnir, námskeiðin, fyrirlestrarnir og Garntorgið mynda vonandi í sameiningu ótrúlega skemmtilega og fjölbreytta upplifun sem heimaprjónafólk og þeir sem heimsækja okkur um helgina njóta. Sameiginlegt áhugamál tengir alla þá sem koma á og að Prjónagleðinni og samvera með þeim sem eru á sömu bylgjulengd og maður sjálfur er svo ótrúlega gefandi og mikil andleg næring. Við leggjum mikla áherslu á að hátíðin sé heimilisleg og notaleg, að fólk hafi tíma til að njóta og vera til á sínum forsendum, með prjónana á lofti að sjálfsögðu.“ 

Dagskrá Prjónagleðinnar 2021 má sjá hér.

Opið er fyrir skráningar á námskeið Prjónagleðinnar til klukkan 08:00 þriðjudaginn 8. júní en fullt af spennandi námskeiðum er í boði sem má sjá hér

Allar nánari upplýsingar um Prjónagleðina má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga