Sveinfríður afhendir Ásdísi gjöfina
Sveinfríður afhendir Ásdísi gjöfina
Stjórn 2020 - 2021
Stjórn 2020 - 2021
Fréttir | 09. júní 2021 - kl. 18:40
Fréttir af Krabbameinsfélagi Austur Húnavatnssýslu

Aðalfundur krabbameinsfélags Austur Húnavatnssýslu var haldinn miðvikudaginn 19. maí. Árið litaðist eins og gefur að skilja af heimsfaraldri og var því lítið um fundi, námskeið og fyrirlestra. Á fundinum tók Ásdís Arinbjarnardóttir formlega við gjöf sem félagið gaf til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands Blönduósi á síðasta ári.

Gjöfin sem um ræðir var Holter sem er síritun á hjartariti, oftast í sólarhring en tækið sem við gáfum getur mælt í sjö daga og gengur skjólstæðingurinn þá með lítið upptökutæki á sér. Þessi rannsókn er gerð þegar leitað er eftir hjartsláttartruflunum.

Tækið hefur nú þegar komið að mjög góðum notum hjá stofnuninni og þakkaði Ásdís kærlega fyrir gjöfina. Á árinu stóð unglingastig Höfðaskóla á Skagaströnd fyrir bingói í tengslum við valfag í viðburðarstjórnun og styrkti félagið um rúmlega 100 þúsund krónur sem söfnuðust á viðburðinum og langar stjórninni að koma kærum þökkum til krakkana í Höfðaskóla.

Krabbameinsfélagið er mikilvægur hlekkur í samfélaginu í A-Hún og vill stjórnin koma þökkum til félaga og allra velunnara félagsins fyrir þeirra framlag og um leið minna á að hægt er ávallt að sækja um stuðning til félagsins vegna ferða og sjúkrahótelskostnaðar auk ýmissa annarra útgjalda vegna krabbameinsmeðferða.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga