Við upphaf leiks á Blönduósvelli í gær
Við upphaf leiks á Blönduósvelli í gær
Fréttir | 13. júní 2021 - kl. 08:18
Öruggur sigur á Blönduósvelli

Kormákur/Hvöt tók á móti Knattspyrnufélagi Breiðholts á Blönduósvelli í gær þegar leikið var í fimmtu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild D-riðli. Heimamenn léku á alls oddi í fyrri hálfleik og skoruðu þrjú mörk en gestirnir sáu ekki til sólar og fundu ekki mark andstæðinganna. George Razvan Chariton skoraði fyrsta mark leiksins á 13. mínútu, Ingvi Rafn Ingvarsson skoraði annað mark tíu mínútum síðar og Akil Rondel Dexter De Freitas skoraði þriðja markið á 30. mínútu.

Heimamenn slökuðu á í seinni hálfleik og að sama skapi mættu Breiðhyltingar ákveðnari til leiks. Aðeins eitt mark var skorað í seinni hálfleik og voru það gestirnir sem gerðu það. Lokatölur í leiknum 3-1 fyrir Kormák/Hvöt og er liðið komið með 12 stig í riðlinum. Léttir situr í efsta sæti með 13 stig.

Næsti leikur Kormáks/Hvatar er gegn Hvíta Riddaranum og fer leikurinn fram í Mosfellsbæ laugardaginn 19. júní klukkan 14.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga