Fréttir | 14. júní 2021 - kl. 10:14
Fréttavefur Húnvetninga í 20 ár

Í dag eru 20 ár frá því að fyrsta fréttin var skrifuð og birt á Húnahorninu, sem þýðir að vefmiðillinn er 20 ára í dag. Vefurinn var fyrst og fremst settur á laggirnar til gagns og gamans fyrir Húnvetninga nær og fjær með áherslu á að segja frá skemmtilegu mannlífi, atvinnulífi, framkvæmdum og framförum í Húnavatnssýslu. Einnig eflingu byggðar og öllu því sem gerir héraðið sérstakt og jákvætt að lifa og starfa í eða heimsækja sem ferðamaður.

Einn tilgangurinn af mörgum með stofnun Húnahornsins var að hvetja fólk, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til þess að segja frá því sem vel væri gert á svæðinu. Vefurinn var boðinn fram sem vettvangur til slíks og voru margir sem nýttu sér það tækifæri. Hvatningin var þó fyrst og fremst að aðilar kæmu sér upp virkum vefmiðlum sjálfir (einstaklingsbloggi, fyrirtækjavef, sveitarfélagavef o.s.frv.) þannig að heimamenn sem og brottfluttir gætu fylgst með hvað væri um að vera í Húnavatnssýslum.

Til gaman má rifja það upp að í júní 2001 var lítið um að fyrirtæki og stofnanir í Húnavatnssýslum væru með sínar eigin heimasíður og ekkert sveitarfélaganna var með sinn eigin vef. Á þessum tíma var ekki heldur til samfélagsmiðlar á borð við Facebook, Instagram eða Twitter. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan í júní 2001. Mörg fyrirtæki og stofnanir eru núna með sínar eigin heimasíður og sveitarfélögin halda öll úti sínum eigin vefjum.

Til fróðleiks þá er Húnahornið ekki fyrirtæki heldur áhugamál eða samfélagsverkefni þeirra sem standa að vefnum, þannig var það í upphafi og er enn. Við reynum eftir fremsta megin að afla áhugaverðra frétta úr héraðinu og njótum dyggrar aðstoða heimamanna við það. Kæru lesendur og aðrir stuðningsaðilar, takk fyrir samfylgdina í 20 ár.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga