Fréttir | 14. júní 2021 - kl. 13:41
Jákvæð rekstrarniðurstaða í erfiðu umhverfi

Sveitarfélagið Húnaþing vesta skilaði 33,4 milljón króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu á síðasta ári samkvæmt ársreikningi sem samþykktur var af sveitarstjórn í síðustu viku. Hagnaðurinn er talsvert minni en árið 2019 þegar hann nam 103 milljónir. Sveitarstjórn segir stöðu sveitarfélagsins góða og að rekstur þess sé í jafnvægi þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru sem hafði áhrif á reksturinn líkt og hjá öðrum sveitarfélögum.

„Áhrifin urðu mikil strax í upphafi faraldursins þegar sett var á úrvinnslusóttkví í sveitarfélaginu og allri starfsemi sem ekki var lífsnauðsynleg var lokað. Áhrifa COVID-19 gætti áfram að úrvinnslusóttkví lokinni og hafa fjölmargir starfsmenn sveitarfélagsins þurft að sæta sóttkví auk þess sem loka þurfti grunnskóla tímabundið og íþróttamiðstöð um lengri tíma. Áhrifin felast í tekjumissi og kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið og ljóst var að mikil óvissa ríkti um helstu tekjustofna sveitarfélagsins,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Þar kemur einnig fram að þegar ljóst var að áhrif heimsfaraldursins á rekstur sveitarfélagsins yrðu mikil var leitað til forstöðumanna um að draga saman seglin eins og kostur var í rekstri stofnana, án þess að kæmi til fækkunar starfsfólks. Viðbrögð forstöðumanna voru undantekningarlaust afar jákvæð og var þeim færðar þakkir fyrir þeirra framlag og útsjónarsemi í rekstri. Þær hagræðingaraðgerðir sem farið var í hafi borið árangur og leiddu til þess að rekstrarafkoma sveitarfélagsins er jákvæð.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga