Fréttir | 15. júní 2021 - kl. 14:40
Guðna forseta boðið á Eldinn

Skipulagsnefnd Elds í Húnaþingi hefur sent Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, bréf þar sem honum og fjölskyldu hans er boðið á hátíðina sem haldin verður 19.-25. júlí í sumar. Í bréfinu, sem birt er á facebooksíðu Elds í Húnaþingi, segir að íbúar í Húnaþingi vestra séu mjög stoltir af hátíðinni og að hún sé vettvangur til að gleðjast og bjóða gestum heim til að sýna allt það fjölskrúðuga menningarlíf sem búi í sveitarfélaginu.

Hátíðin verður sú 19. í röðinni og hefur verið haldin árlega frá árinu 2003. Hún hefur verið drifin áfram í sjálfboðaliðastarfi af heimamönnum með dyggum fjárstuðningi frá styrktaraðilum. "Að baki hverri hátíð liggja margir klukkutímar í undirbúningi, vinnu á hátíðinni sjálfri og í frágangi eftir hátíðina. Hérna hafa margar hendur komið að hátíðinni á einn hátt eða annan," segir í bréfinu.

„Að því sögðu langar okkur að bjóða þér og þinni fjölskyldu að líta við til okkar á hátíðina í ár. Hér finna allir eitthvað við sitt hæfi,“ segir í lok bréfsins sem lesa má hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga