Fréttir | 20. júní 2021 - kl. 09:23
Öruggur sigur í Mosfellsbæ

Kormákur/Hvöt mætti Hvíta riddaranum á Fagverksvellinum í Mosfellsbæ í gær þegar leikið var í sjöttu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild D-riðli. Fyrri hálfleikur var tíðindalítill og markalaus, en gestirnir heldur sterkari. Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega þegar víti var dæmt á Hvíta riddarann. George Razvan Chariton steig á vítapunktinn og skoraði örugglega fyrir Kormák/Hvöt.

Hvíti riddarinn sótti stíft til að ná jöfnunarmarki en leikmenn Kormáks/Hvatar vörðust vel og beittu skyndisóknum. Á 63. mínútu leiksins skoraði Akil Rondel Dexter De Freitas gullfallegt mark en hann fékk boltann á eigin vallarhelmingi, hljóp með hann upp allan völlinn og lagði hann laglega í markið hjá heimamönnum. Fleiri mörk voru ekki skoruð og sanngjörn úrslit 2-0 fyrir Kormák/Hvöt. Liðið er nú komið með 15 stig eftir sex leiki, jafnmörg stig og Vængir Júpíters sem eru efstir í riðlinum á betri markatölu.

Næsti leikur Kormáks/Hvatar er á fimmtudaginn og fer hann fram á Blönduósvelli klukkan 20.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga