Pistlar | 21. júní 2021 - kl. 16:17
Sögukorn af Bríeti - Að vera sjálfbjarga
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

„Þá var ilmurinn í eldhúsinu heima betri. Hversu oft hafði honum ekki verið hugsað heim í grænmálað eldhúsið, í krókinn við vesturgluggann, en svo undarlegt sem það var, þá mundi hann lyktina best af öllu. Sumar lyktir greypa sig í minnið og hverfa aldrei, en dyljast og sæta færi; einhverju slær fyrir og hugurinn fyllist af heimlegri angan þótt ekkert hafi í raun gerst og á eftir er útilokað að skýra af hverju, en er svo náið einhvern veginn. . . Þegar þetta bar við greip fortíðin hann föstum tökum og hálfgleymdar myndir hlóðust upp  svo minnið hafði ekki undan. Ókunnir menn í útidyrum og spurðu eftir Valdimar ritstjóra, móðir hans þung á brún, hálfkæft hvíslið á kvöldin og svo þessir erfiðu tíma þegar hún fór að heiman og Valdimar reikaði um húsið eins og vængbrotinn mjósleginn hrafn. . . . sá sem hugsar er hvergi sveitfastur né safnaðarhæfur."

Lýsing Matthíasar Viðars á heimili Héðins Bríetarsonar og Valdimars birtist hér, bókmenntafræðingurinn MVS er svo snjall að leggja þessa lýsinguna í hug sonarins Héðins á sjóferð sem beið þeirra sem sóttu fast námið, en Bríet móðir hans hafði komið norðan frá Böðvarshólum í Vesturhópi, var Kolfinnudóttir Snæbjörnsdóttur í Forsæludal, Snæbjörnssonar prests í Grímstungu Halldórssonar.

Snæbirningur.

Hjónin í Böðvarshólum, þau Kolfinna og Bjarnhéðinn eignuðust 4 börn sem lifðu og var Bríet þeirra elst, f. 1857 og sagðist hafa átt góða foreldra þótt faðir hennar væri nokkuð harður en „hann kenndi henni fyrst og fremst að hugsa – að vilja vera sjálfbjarga, áreiðanleg og sannorð. Þessar lífsreglur lýstu lífi hennar þaðan í frá, en á æskuárunum sat hún yfir ám, gætti systkina og aðstoðaði móður sína við innistörf eins og tíðkaðist á þessum árum, var bókhneigð frá unga aldri en fá tækifæri til lestrar."

Borgin veitti Bríeti og Valdimar manni hennar byr undir vængi, hann var orðinn ritstjóri Fjallkonunnar þegar þau kynntust, en hún stofnaði Kvennablaðið og stóð síðar að stofnun Blaðamannafélags Íslands 19. nóvember 1897.

Ótrúlegt!

Búferli eru oftlega nokkuð sem örlögin knýja okkur til að takast á hendur þó við vildum gjarnan ganga fram hjá þeim kaleik. En þá fer oftar en ekki nokkur sköpun af stað og í henni framkallast endurfæðing við hagstæð skilyrði. Erlendur á Mörk skrifaði minningar sínar af Laxárdal og Hallárdal, einmana í Vesturheimi. Hann ætti marga aðdáenda á fésinu Jónas Tryggvason, 1916-´83 hætti að vísu að rita í dagbók sína þegar hann flutti til Blönduóss 1959 en þá sogaðist hann inn í félagslíf í nýju samfélagi og tók þátt í merku starfi með nýjum skólastjóra, eignaðist snjalla og trausta konu og margt snerist áleiðis á þeim rúmu tveimur áratugum sem í hönd fóru og Bjarkarhjónunum entust dagar. Grímur Thomsen blakaði við Jóni Árnasyni bókaverði, dýrmætum skólamanni og umsjónarmanni í Lærða skólanum v/Lækjargötu, þ.e. MR og því búsettur þar og mér var í nöp við Grím nokkra mánuði þegar ég komst að þessu. En Jón eignaðist konu, kominn á miðjan aldur eins og nýnefndur Jónas. Og þau Jón og Katrín gerðu sér heimili upp í Þingholtunum sem Halldóra frænka hans Vatnsdælingur og Háagerðiskona lýsir fagurlega í ævisögu sinni. Þar áttu þær mæðgurnar fyrstu misserin í Reykjavík.

En búferli þeirra Bríetar náðu til borgarinnar/Malarinnar fremur en milli húsa þar í bæ. Reykjavík þá var þorp í vexti, ófrægðarsögurnar margar og fyrsti bæjar/borgarstjórinn birtist ekki fyrr en 1908. Verkefnin biðu og þau hjónin tóku sannarlega til hendi við sköpun þessa nýja samfélags.

Og það er lífið!

Meira efni:
Bríet í wikipediu: https://is.wikipedia.org/wiki/Br%C3%ADet_Bjarnh%C3%A9%C3%B0insd%C3%B3ttir Stofnað blaðamannafélag Íslands: https://www.press.is/is/um-felagid/felagid/siklur-ur-sogu-bi
Matthías Viðar Sæmundsson: Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey Rv. 2004
Matthías Viðar – minningargrein: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/780928/
Sögukorn af langferðum: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17468
Sögukorn af Þorsteini Arnljótssyni kaupmanni á Raufarhöfn: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17236
Sögukorn. Ólafsbréf frá Árbakka:  https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16478
Stökuspjall: Mér er um og ó um Ljót: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16409  

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga