Í kvöld er brekkusöngur og varðeldur í Fagrahvammi
Í kvöld er brekkusöngur og varðeldur í Fagrahvammi
Fréttir | 17. júlí 2021 - kl. 08:17
Líf og fjör á Húnavöku

Húnavökuhátíðin er í fullum gangi og hefur allt gengið ljómandi vel. Stærsti dagur hátíðarinnar er í dag og er dagskráin stútfull af allskonar skemmtilegum viðburðum. Klukkan 10 hefst Húnavökugolfmót Terra á Vatnahverfisvelli og opið mót í ólympísku skeet hjá Skotfélaginu Markviss. Mótið er hluti af mótaskrá Skotíþróttasambands Íslands. Hið árlega Blönduhlaup hefst klukkan 10:30 og fer skráning fram í anddyri Félagsheimilisins klukkan 9:45-10:30. Torfæra fer af stað klukkan 11 í námunni við Kleifarhorn í umsjón Bílaklúbbs Akureyrar. Keppt verður í tveimur flokkum; götubíla og sérútbúnum.

Fjör verður við Félagsheimilið klukkan 14-17 og þar verður einnig markaðsstemning. Umhverfisverðlaun Blönduósbæjar verða veitt og verðlaun fyrir best skreytta húsið, flottustu og frumlegustu fígúrurnar og fyrir götuna með flestu fígúrurnar. Fjölbreytt skemmtiatriði verða í boði og Sveppi og villi kynna og skemmta. Andlitsmálum og blöðrur verða í boði fyrir börn, Vilko bíllinn mætir á svæðið, sem og Veltibíll Sjóvá, og teymt verður undir börnum með hesta. Þá verður sýning á bílum hjá 4x4 klúbbnum í Húnavatnssýslum og auðvitað hoppukastalar.

Klukkan 16 er boðið upp á gönguferð um Hrútey með Hrafnhildi Aradóttur – Shoplifter en hún stendur fyrir sýningunni Boðflenna í Hrútey. Orgeltónleikar fara fram í Blönduóskirkju klukkan 17 þar sem Eyþór Franzson Wechner, organisti kirkjunnar leikur fjölbreytta orgeltónlist á glæsilegt orgel hennar. Knattspyrnuleikur hefst á Blönduósvelli klukkan 17 þar sem 4. deildar liðin Kormákur/Hvöt og Úlfarnir etja kappi. Sundlaugapartý verður í sundlauginni milli klukkan 17 og 19 og Zumba partý í Ósbæ milli klukkan 17:30 og 18:30.

Kótelettukvöld B&S verður í Eyvindarstofu þar sem þykkar og feitar kótelettur, sérvaldar frá SAH Afurðum, verða í boði með raspi frá Vilko. Uppselt er á kótelettukvöldið. Laugardagurinn endar svo á brekkusöng og varðeldi í Fagrahvammi með Halla Guðmunds, Bödda Reynis, Jónsa Í svörtum fötum og Ingó trommara SSSól. Fyrir þá allra hörðustu verður stórdansleikur í Félagsheimilinu með Jónsa og Regínu og hljómsveit frá klukkan 23-03.

Heimilisiðnaðarsafnið, sundlaugin, Minjastofan og Vatnsdæla á refli taka vel á móti gestum Húnavöku í allan dag og Flugklúbbur Blönduós verður með útsýnisflug ef veður og aðstæður leyfa. Þá er vert að minnast á útilistaverkin í Hrútey eftir listakonuna Hrafnhildi Arnardóttur eða Shoplifter eins og hún kallar sig. Þar stillir hún náttúruperlunni Hrútey og gervináttúruverkum sínum upp sem hliðstæðum sem einnig má skoða sem andstæður, samstæður eða gagnstæðar spegilmyndir.

Góða skemmtun!

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga