Fréttir | 19. júlí 2021 - kl. 10:05
Eldur í Húnaþingi að fara af stað

Næsta fjölskyldu- og bæjarhátíð í Húnavatnssýslum er Eldur í Húnaþingi en hún hefst formlega á miðvikudaginn. Ýmsir viðburðir hefjast þó strax í dag eins og stuttmyndanámskeið, sem heldur svo áfram út hátíðina. Þá munu íbúar Sjúkrahússins á Hvammstanga njóta góðs af einstakri hljómgerð Svavars Knúts klukkan 14 í dag og aðrir svo í Mjólkurhúsinu á Stóru-Ásgeirsá seinna klukkan 21 í kvöld.

Eldur í Húnaþingi er hátíð í Húnaþingi vestra sem hefur verið haldin árlega allt frá árinu 2003. Fyrst um sinn var hátíðin unglistahátíð. Þá var hún bæði skipulögð og framkvæmd af ungi fólki í Húnaþingi vestra. Með tímanum fékk hátíðin á sig fjölskyldu- og bæjarhátíðarblæ og hefur dagskráin verið breytileg með ári hverju en hún ræðst oftar en ekki af áhugasviði stjórnenda.

Dagskráin hefur oftar en ekki innihaldið fjölmarga tónlistarviðburði, námskeið, dansleiki, viðburði með íþróttalegu ívafi, svo eitthvað sé nefnt. Mikil áhersla hefur verið lögð á að fólk á öllum aldri geti fundið eitthvað við sitt hæfi og að sem flestir viðburðir séu gestum að kostnaðarlausu.

Lesendur Húnahornsins eru hvattir til að kynna sér fjölbreytta og skemmtilega dagskrá Eldsins hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga