Stórlax í Vatnsdalsá
Stórlax í Vatnsdalsá
Fréttir | 22. júlí 2021 - kl. 09:35
415 laxar á einni viku

Veiði í helstu laxveiðiánum í Húnavatnssýslum er aðeins tekin að glæðast en hún hefur verið dræm sem af er sumri. Miðfjarðará er komin í 363 laxa og var vikuveiðin 157 laxar. Laxá á Ásum er komin í 191 lax og vikuveiðin 87 laxar. Blanda er með 179 laxa og vikuveiðin 66 laxar. Víðidalsá er með 159 laxa og vikuveiðin 63 laxar.

Í Vatnsdalsá hafa veiðst 92 laxar og vikuveiðin 32 laxar og í Hrútafjarðará og Síká hafa veiðst 28 laxar með vikuveiði upp á 10 laxa. Þannig hafa samtals veiðst 415 laxar síðastliðna sjö daga í þessum sex laxveiðiám eða 59 laxar á dag.

Flestir laxar eða 741 hafa veiðst í Urriðafossi í Þjórsá ef tölur eru skoðaðar fyrir landið í heild en þær má finna á vef Landssambands veiðifélaga. Norðurá í Borgarfirði kemur þar á eftir með 717 laxa og Þverá og Kjarrá eru í þriðja sæti með 567 laxa. Miðfjarðará er sjöunda aflahæsta laxveiðiáin á landinu eins og er og Laxá á Ásum er í ellefta sæti.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga