Olga Vocal Ensemble
Olga Vocal Ensemble
Fréttir | 22. júlí 2021 - kl. 12:46
Tónleikaröð sóknarnefndar Blönduóskirkju

Fyrstu tónleikarnir í tónleikaröð sóknarnefndar Blönduóskirkju verða haldnir í kirkjunni mánudaginn 26. júlí klukkan 20 þar sem fram koma Olga Vocal Ensemble. Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði SSNV og Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga. Allur aðgangseyrir rennur óskiptur í orgelsjóð kirkjunnar.

Ef einstaklingar og fyrirtæki vilja styrkja sjóðinn þá er reikningsnúmerið eftirfarandi:  0307-26-004701. Kt: 470169 – 1689.

Olga Vocal Ensemble er sönghópur sem hefur verið starfræktur síðan árið 2012. Hópurinn hélt sína fyrstu tónleika á Íslandi sumarið 2013 og hefur heimsótt Ísland á hverju ári síðan, að undanskildu árinu 2020. Hópurinn er skipaður fimm strákum, þrír þeirra eru búsettir í Hollandi og tveir á Íslandi.

Í Olgu eru Hollendingarnar Jonathan Ploeg og Arjan Lienaerts, Englendingurinn Matthew Lawrence Smith, rússneski Bandaríkjamaðurinn Philip Barkhudarov og Íslendingurinn Pétur Oddbergur Heimisson.

Olga hefur gefið út þrjá geisladiska, fyrsti diskurinn kom út árið 2012,„Vikings“ kom út árið 2016 og „It’s a Woman’s World“ kom út árið 2018. Sumarið 2021 kemur síðan út fjórði diskur hópsins „Aurora“ en hann verður einnig fáanlegur á vínylplötu. 

Lagalisti tónleikanna verður fjölbreyttur og má heyra klassísk verk, jazzlög yfir í yfirtónasöng saminn af meðlimum Olgu þar sem má líkja hljómnum sem heyra má við það þegar norðurljósin mála falleg verk á himnum.

Sjá nánar á facebooksíðu Blönduóskirkju.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga