Mikil stemning var á Hvammstangavelli í gær enda Eldur í Húnaþingi í fullum gangi. Mynd: /FB Aðdáendasíða Kormáks.
Mikil stemning var á Hvammstangavelli í gær enda Eldur í Húnaþingi í fullum gangi. Mynd: /FB Aðdáendasíða Kormáks.
Fréttir | 25. júlí 2021 - kl. 10:29
Vatnaliljurnar kaffærðar á Hvammstangavelli

George Razvan Chariton og Ingvi Rafn Ingvarsson, leikmenn Kormáks/Hvatar, sáu um að kaffæra Vatnaliljunum á Hvammstangavelli í gær þegar liðin áttust við í elleftu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, 4. deild D-riðli. Leikurinn endaði 5-0 og gerði George Razvan þrennu og Ingvi Rafn skoraði tvö mörk. Heimamenn réðu lögum og lofum í leiknum frá upphafi og til enda. Staðan í hálfleik var 3-0.

Kormákur/Hvöt er í öðru sæti í riðlinum með 27 stig, þremur stigum á eftir Vængjum Júpíters sem eru á toppum. Telja má nokkuð öruggt að þessi tvö lið fari áfram í úrslitakeppnina í haust en fimm stig skilja að annað og þriðja sætið. George Razvan Chariton er markahæstur í riðlinum, hefur skorað 13 mörk í sumar en Sindri Snær Eyjólfsson úr Vængjum Júpíters er næst markahæstur með átta mörk.

Næsti leikur Kormáks/Hvatar fer fram 7. ágúst á Leiknisvellinum í Reykjavík og hefst klukkan 14. KB er í næst neðsta sæti riðilsins með aðeins fimm stig, hefur unnið einn leik, gert tvö jafntefli og tapað átta leikjum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga