Fréttir | 26. júlí 2021 - kl. 13:08
Skilyrði fyrir samruna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH Afurða uppfyllt

Samkomulag um samruna Kjarnafæðis, Norðlenska matborðsins og SAH Afurða var undirritað í júlí í fyrra. Samkeppniseftirlitið heimilaði samrunann 12. apríl síðastliðinn með skilyrðum hinn 12. apríl og síðan þá hafa stjórnir og stjórnendur félaganna ásamt ráðgjöfum unnið að því hörðum höndum að uppfylla skilyrðin til að fá heimild til að framkvæma samrunann. Nú hafa þau skilyrði verið uppfyllt og geta samrunafélögin því hafið sameiningarferlið, að því er segir í tilkynningu.

Í henni kemur fram að ljóst sé að rekstrarskilyrði félaganna hafa versnað verulega á liðnum árum og auk þess hafa áhrif samdráttar í kjölfar COVID-19 gert þá stöðu enn þyngri. Í tilkynningunni segir: „Sameining félaganna og sú hagræðing sem stefnt er að með henni er nauðsynleg svo standa megi vörð um þá mikilvægu framleiðslu og þá þjónustu sem félögin veita bændum, viðskiptavinum og neytendum.“

Vonir standa til þess að samruni félaganna verði formlega frágenginn í lok sumars en eigendur samrunafélaganna hafa komið sér saman um að formaður stjórnar sameinaðs félags verði Helga Björk Eiríksdóttir og forsvarsmaður félagsins verði Ágúst Torfi Hauksson.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga