Landsnet og Etix Everywhere Borealis skrifa undir viljayfirlýsinguna. Mynd: Landsnet.is
Landsnet og Etix Everywhere Borealis skrifa undir viljayfirlýsinguna. Mynd: Landsnet.is
Fréttir | 27. júlí 2021 - kl. 12:51
Viljayfirlýsing um aukinn flutning á raforku til gagnaversins á Blönduósi

Landsnet og Etix Borealis, sem rekur gagnaver á Blönduósi, hafa undirritað viljayfirlýsingu um aukinn flutning á raforku til gagnaversins. Mun aukningin fara fram í áföngum, þar sem í fyrsta áfanga verður nýtt svokallað snjallnet til að auka flutninginn og tryggja rekstraröryggi flutningskerfisins.

Á vef Landsnets kemur fram að Snjallnet er samheiti yfir tækninýjungar sem nýta fjarskipta-, stýri- og upplýsingatækni til að tryggja sem öruggasta afhendingu rafmagns og hámarka jafnframt nýtingu raforkukerfisins. Þar kemur einnig fram að Etix Borealis rekur sjálfbært gagnaver á heimsmælikvarða, með lágmarks kolefnisfótspori. Það er gert með því að tengjast endurnýjanlegri orku í gegnum flutningskerfi raforku á Íslandi. „Markmið Etix Borealis og Landsnets fara því einstaklega vel saman þegar kemur að nýtingu snjalltækni við afhendingu rafmagns á áreiðanlegan máta.“

Haft er eftir Guðmundi I. Ásmundssyni, forstjóri Landsnets, að það sé ánægjulegt að fyrirtækið geti tekið þátt í því að gagnaver Etix á Blönduósi vaxi áfram. „Við hlökkum til samstarfsins, sem hefur verið ákaflega farsælt hingað til. Það er einnig sérstaklega ánægjulegt að geta boðið flutning á raforku með snjöllum hátæknilausnum, sem þróaðar eru með Etix, báðum aðilum til hagsbóta,“ segir í tilkynningu á vef Landsnets.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga