Fréttir | 13. september 2021 - kl. 08:56
Vilja aukið gagnsæi í opinberar styrkveitingar

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra tekur heilshugar undir bókun stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra en í henni er skorað á ábyrgðaraðila opinberra styrkveitinga að veita tölfræðilegar upplýsingar um búsetu styrkþega og umsóknaraðila við úthlutanir.

Í bókun SSNE segir að fram þurfi að koma fjöldi umsókna, sem og fjöldi veittra styrkja, skipt eftir landshlutum. Slík gögn auki gagnsæi og myndi veita m.a. landshlutasamtökum, sveitarfélögum og atvinnulífi mikilvæga innsýn.

„Þær upplýsingar sem fjallað er um auðvelda starf ráðgjafa landshlutasamtaka við að greina árangurshlutfall umsækjenda á hverju svæði fyrir sig og gefa vísbendingar um þörf á stuðningi við umsóknargerð sem og hvatningu til hagaðila að sækja um í hina ýmsu sjóði. Þessar upplýsingar eru því liður í að fjölga umsóknum af landsbyggðinni og stuðla þannig að aukinni þátttöku fyrirtækja og einstaklinga í hinum dreifðari byggðum,“ segir í bókun SSNV.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga