Frá framkvæmdatíma. Mynd: vegagerdin.is
Frá framkvæmdatíma. Mynd: vegagerdin.is
Fréttir | 17. september 2021 - kl. 10:56
Biskupsbeygjan á Holtavörðuheiði er öll

Opnað var fyrir umferð á nýjum vegarkafla um Heiðarsporð á Holtavörðuheiði í júlí en þar með var kvödd varasöm beygja á Hringveginum sem í daglegu tali er kölluð Biskupsbeygja. „Engum er söknuður að beygjunni sem var stórvarasöm og völd að ófáum slysum í gegnum árin,“ segir á vef Vegagerðarinnar. Verkið snérist um endurbyggingu á 1,8 kílómetra kafla á Hringvegi um Heiðarsporð í sunnanverðri Holtavörðuheiði þar sem hún tekur að lækka í átt að Norðurárdal.

Nýi vegkaflinn tengist núverandi vegi um 200 metrum norðan við brú yfir Norðurá og tekur beygju til norðvesturs frá núverandi vegi með mýkri veglínu en núverandi vegur. Töluverðar breytingar urðu á veglínu við framkvæmdina en verkið fól einnig í sér upprif á slitlagi og útjöfnun gamla vegarins en ákveðið var að bíða með að fjarlægja gamla veginn. Nýi vegurinn er níu metrar að breidd, þar af er akbrautin sjö metrar og hvor öxl einn metri.

Á vef Vegagerðarinnar er haft eftir Reyni Georgssyni, verkfræðingi á tæknideild Vestursvæðis að biskupsbeygjan hafi verið stórhættuleg og mikið af útafkeyrslum á veturna. Meira að segja hafi orðið nokkrar slíkar á framkvæmdatímanum. Reynir var umsjónamaður framkvæmdarinnar. Inntur eftir því af hverju þessi skrítna beygja hafi yfirleitt verið á veginum svarar Reynir að líklega hafi þurft að laga veglínuna að náttúrulegum aðstæðum á heiðinni. „Gamli vegurinn liggur á melum en nýi vegurinn fer yfir mýrlendi. Að leggja veg yfir mýri kallar á nútímalegri framkvæmd enda þarf að setja farg, reikna sigtíma og gera ýmsar rannsóknir áður en hægt er að byrja að leggja sjálfan veginn. Þetta hefur líklega ekki þótt gerlegt hér áður fyrr.“

Sumir gætu haldið að Biskupsbeygjan dragi nafn sitt af fornum biskupum eða náttúrufyrirbrigðum á Holtavörðuheiði en svo er víst ekki. Sagan segir að biskup Íslands hafi eftir miðja síðustu öld lent þar útaf í hríð og snjó og setið fastur. Þá hafi komið þar að bílstjóri Norðurleiðar og bjargað biskupi. Varð þá til þetta heiti sem síðan hefur ratað víða, meðal annars í samgönguáætlun og dagbækur lögreglunnar enda tíð slys á vegkaflanum.

Sjá nánari umfjöllun á vef Vegagerðarinnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga