Fréttir | 26. september 2021 - kl. 21:19
Atkvæði endurtalin í Norðvesturkjördæmi

Endurtalning í Norðvesturkjördæmi hefur leitt í ljós misræmi í talningu atkvæða, en síðdegis var ákveðið að telja þar aftur vegna þess hversu lítill munur var á jöfnunarþingmönnum milli kjördæma. Þetta hefur þýtt breytingu á jöfnunarmönnum þingflokka en þingstyrkurinn hélt sér. Hjá Samfylkingu kemur Jóhann Páll Jóhannsson inn og Rósa Björk Brynjólfsdóttir dettur úr í staðinn. Hjá Pírötum nær Gísli Rafn Ólafsson á þing, en Lenya Rún Taha Karim dettur út.

Hjá Viðreisn nær Guðbrandur Einarsson kjöri en Guðmundur Gunnarsson ekki. Hjá Miðflokknum kemur Bergþór Ólason inn á kostnað Karls Gauta Hjaltasonar og hjá Vinstri grænum kemur Orri Páll Jóhannsson inn í stað Hólmfríðar Árnadóttur.

Tölur eftir endurtalningu:
Framsóknarflokkur - 4.448 atkvæði (í stað 4.443 áður)
Viðreisn - 1.063 atkvæði (í stað 1.072 áður)
Sjálfstæðisflokkur - 3.897 atkvæði (í stað 3.887 áður)
Flokkur fólksins -  1.510 atkvæði (í stað 1.513 áður)
Sósíalistaflokkur Íslands - 728 atkvæði (í stað 721 áður)
Miðflokkur - 1.278 atkvæði (í stað 1.283 áður)
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn - 73 atkvæði (í stað 72 atkvæða áður)
Píratar - 1.081 atkvæði (í stað 1.082 áður)
Samfylking - 1.195 atkvæði (í stað 1.196 áður)
Vinstri græn - 1.978 atkvæði (í stað 1.979 áður)

Samkvæmt þessu eru þingmenn Norðvesturkjördæmisins eftirfarandi:

Stefán Vagn Stefánsson Framsóknarflokki.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir Sjálfstæðisflokki.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Framsóknarflokki.
Bjarni Jónsson Vinstri grænum.
Haraldur Benediktsson, Sjálfstæðisflokki.
Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins.
Halla Signý Kristjánsdóttir, Framsóknarflokki.
Bergþór Ólason, Miðflokki.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga