Fréttir | 27. september 2021 - kl. 20:04
Óvissustigi almannavarna lýst yfir

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórana á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Vesturlandi og á Vestfjörðum, hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna í þessum umdæmum vegna slæmrar veðurspár á morgun, þriðjudaginn 28. september. Spáð er óveðri sem getur spillt færð og valdið foktjóni, fyrst á Norðausturlandi í nótt sem gengur síðan vestur yfir Norðurland og nær hámarki á Vestfjörðum seinnipart dags á morgun. 

Veðurstofa Íslands gaf út í morgun gula veðurviðvörum fyrir þessi landsvæði, fyrir morgundaginn, fyrir utan Vestfirði en þar var gefin út appelsínugul viðvörun. Nú hefur Veðurstofan gefðu út appelsínugula viðvörun einnig fyrir Norðurland vestra sem gildir klukkan 11-18 á morgun.

Gulviðvörun er í gildi fyrir Norðurland vestra frá klukkan 8 í fyrramálið og til klukkan 11 en þá tekur appelsínugul viðvörun við og gildir til 18, eins og áður sagði. Þá tekur gul viðvörun við og gildir miðnættis. Í fyrramálið má búast við vindhraða upp á 15-23 m/s og talsverðri snjókommu eða slyddu með skafrenningi og takmörkuðu eða lélegu skyggni. Upp úr klukkan 11 fer vindur í 18-25 m/s og hitastig lækkar. Einnig má búast við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda. Hætta er á foktjóni og er fólk hvatt til að ferðast ekki milli landshluta.

Sjá nánari upplýsingar um veður á vef Veðurstofu Íslands og um færð á vegum á vef Vegagerðarinnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga