Skjáskot úr Morgunblaðinu í dag, 30. sept. 2021
Skjáskot úr Morgunblaðinu í dag, 30. sept. 2021
Fréttir | 30. september 2021 - kl. 17:52
Fé fennti í kaf í hríðarveðrinu

Björgunarsveitarmenn úr Björgunarfélaginu Blöndu voru kallaðir út í vikunni þegar djúp lægð gekk yfir landið með hríðarveðri um norðanvert landið. Aðstoðuð þeir m.a. bændur í Húnavatnshreppi við að bjarga fé sem fennt hafði í kaf. Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Jón Kristófer Sigmarsson, bónda á Hæli, en á heimatúninu þar voru hundruð fjár og um 80-100 kindur fóru ofan í skurð og stöfluðust þar hver ofan á aðra.

„Veðrið var stjörnuvitlaust, en öllu fé hér á bæ tókst að bjarga,“ segir Jón Kristófer í samtali við Morgunblaðið. Strax í bítið á þriðjudagsmorgun hafi verið komin snjókoma og stormur, sem hafi hert eftir því sem leið á daginn. Hríðarveður þetta hafi staðið þar til síðdegis og þá hafi verið komið 20-30 cm lag af snjó yfir tún. „Ef lömb fara ofan í skurði stendur yfirleitt eitt upp úr. Því var fljótlegt að lesa sig í gegnum þetta og finna féð. Núna teljum við okkur hér á Hæli vera búin að leita af okkur allan grun og heimta allt okkar fé,“ segir Jón Kristófer í blaðinu.

Í Morgunblaðinu kemur einnig fram að mannskapur frá björgunarfélaginu, alls tíu manns, hafi aðstoðað bændur í Vatnsdal í gær, sem leituðu að fé sínu. „Við erum við hjálparstörf á tveimur bæjum í dalnum, en á þeim jörðum sem efst standa er talsverður snjór eftir þetta hríðarskot,“ sagði Þorgils Magnússon björgunarsveitarmaður í samtali við Morgunblaðið.

Þá segir í fréttum Ríkisútvarpsins að félagar úr Björgunarfélaginu Blöndu hafi í dag aðstoðað í hrossabónda í Austur-Húnavatnssýslu við að ná hrossi upp úr forarpytti þar sem það sat fast. Vel gekk að draga hrossið á þurrt, en þetta var í mjög blautu mýrlendi og aðstæður erfiðar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga