List fyrir alla
List fyrir alla
Fréttir | 04. október 2021 - kl. 15:24
Vefurinn List fyrir alla

Á vefnum List fyrir alla má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna. Á vefnum er að finna ítarlegar upplýsingar um barnamenningu og listviðburði fyrir ungt fólk sem gagnast bæði skólum og fjölskyldum.

List fyrir alla er verkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem hefur verið starfrækt síðastliðin fimm ár. Markmið þess er að miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafnar þannig aðgengi þeirra að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum og leitast við sinna öllum listgreinum jafnt svo nemendur eigi þess kost að kynnast fjölbreytni listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.

Vefurinn Listfyriralla.is hefur vaxið og dafnað með árunum en þar nú einnig að finna vinsæla list- og menningarfræðslu í formi 150 myndbanda og listkennsluefnis svo og upplýsingar um listviðburði sem bjóðast grunnskólum landsins hverju sinni.

Um 10.000 nemendur á grunnskólaaldri hafa að meðaltali sótt viðburði á vegum Listar fyrir alla á hverju skólaári en rúmlega 90% grunnskóla landsins hafa tekið þátt í verkefninu. Meðal þeirra 27 listviðburða sem í boði verða í vetur eru Ein stór fjölskylda með Gunna og Felix, grímuverðlaunasýningin Allra veðra von, Goðsagnakenndar forynjur og furðuverur Kristínar Rögnu og verkefnið Stafrænar styttur í samstarfi við Listasafn Einars Jónssonar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga