Fréttir | 05. október 2021 - kl. 07:51
Bleika slaufan komin í sölu

Bleikur október er runninn upp og þar með er hafin sala á bleiku slaufunni. Bleika slaufan er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Í ár leggur Krabbameinsfélagið áherslu á slagorðið „verum til" og mikilvægi þess að vera til staðar fyrir þær konur sem greinast með krabbamein, þegar tilveran breytist snögglega og við tekur tími sem getur reynst afar erfiður.

Árlega greinast að meðaltali um 850 konur með krabbamein og 300 konur deyja að meðaltali úr krabbameinum. Í dag eru 9.000 konur á lífi sem fengið hafa krabbamein, að því er fram kemur á vef Bleiku slaufunnar.

Bleika slaufan – hálsmen
Bleika slaufan er hönnuð af Hlín Reykdal skartgripahönnuði og kostar hún 2.900 krónur. Hægt er að kaupa hana á bleikaslaufan.is og hjá fjölmörgum söluaðilum um land allt. Að vanda verður sparislaufa Bleiku slaufunnar til sölu í takmörkuðu upplagi. Allur ágóði Bleiku slaufunnar rennur til fjölbreyttrar starfsemi Krabbameinsfélagsins.

Starfsemin felst m.a. í ókeypis ráðgjöf og stuðningi fyrir þá sem veikjast og aðstandendur þeirra, fræðslu og forvörnum, krabbameinsrannsóknum og hagsmunagæslu. Allt starfið miðar að því að fækka nýjum tilfellum krabbameina, fækka dauðsföllum af völdum þeirra og að bæta lífsgæði þeirra sem veikjast og aðstandenda þeirra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga