Fréttir | 04. október 2021 - kl. 16:15
Skagaströnd gefur út húsnæðisáætlun

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur unnið húsnæðisáætlun fyrir árin 2021-2024. Hlutverk húsnæðisáætlana sveitarfélaga er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til skemmri og lengri tíma, að því er segir á vef Skagastrandar.

Samkvæmt áætluninni eru 215 íbúðir á Skagaströnd og búa að meðaltali tveir í hverri íbúð, sem er undir landsmeðaltali. Í áætluninni segir að það sé í takt við þá þróun sem hafi átt sér stað í sveitarfélaginu, að margt eldra fólk sitji eitt eftir í stórum húsum sem áður hýstu fjölskyldur. Það sé því ekki mikið af lausu húsnæði þó að íbúafjöldi á Skagaströnd hafi farið lækkandi síðustu áratugi.

„Ungt fólk sem vill snúa aftur heim að loknu námi eða nýir íbúar sem vilja koma hingað til þess að sækja atvinnu hafa ekki um mikið að velja. Skortur á húsnæði hamlar fjölgun í sveitarfélaginu þar sem lítið og stundum ekkert íbúðarhúsnæði stendur til boða,“ segir í húsnæðisáætluninni.

Stærsti hluti af húsnæðisstofni sveitarfélagsins samanstendur af einbýlishúsum eða alls 116 hús sem er um 54% af öllu íbúðarhúsnæði á Skagaströnd. Nýjustu húsin sem reist hafa verið á Skagaströnd eru einnig einbýli. Nýjasta húsið var byggt á þessu ári en þar á undan var síðast byggt íbúðarhús árið 2007. Á Skagaströnd eru fjögur fjölbýlishús og það síðasta byggt árið 1992.

Um 27% allra íbúða á Skagaströnd eru 4 herbergja íbúðir og 23% eru 5 herbergja íbúðir. Þá eru 20% allra íbúða á Skagaströnd 3 herbergja. Einungis 1% íbúða á Skagaströnd eru 1 herbergja og 6% íbúða eru tveggja herbergja.

Húsnæðisáætlun Sveitarfélagsins Skagastrandar má lesa hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga