Í Blönduvirkjun
Í Blönduvirkjun
Fréttir | 05. október 2021 - kl. 14:15
Fyrsti hverfill Blönduvirkjunar ræstur þennan dag fyrir 30 árum

Þennan dag fyrir 30 árum síðan ræsti Jóhannes Nordal fyrsta hverfilinn í Blönduvirkjun. Fréttablaðið minnist þessa atburðar í blaðinu í dag og rifjar upp að virkjunin er fyrsta stórvirkjun Íslendinga sem er að öllu leyti íslensk hönnun. Framkvæmdir við virkjunina hófust árið 1984 og var miðað við að þeim yrði lokið árið 1988. Virkjunarkostnaðurinn varð í heild 672 milljónir króna en hann var upphaflega áætlaður 540 milljónir króna.

Við Blönduvirkjun unnu að jafnaði rúmlega hundrað manns frá stórum fyrirtækjum, Landsvirkjun, Hagvirki, Krafttaki og Metalna. Blanda var stífluð við Reftjarnarbungu en önnur stífla var reist við upptök Kolkukvíslar nokkru vestar en hún rennur til Vatnsdalsár. Með þessum tveimur stíflum myndaðist miðlunarlónið.

Blönduvirkjun var frábrugðin öðrum virkjunum að því leyti að hún er neðanjarðarvirki. Ekkert orkuver af þessari stærðargráðu hafði til skamms tíma vélbúnað sinn að öllu leyti neðanjarðar. Stærsti stigi landsins var einnig settur upp en hann telur 1.100 tröppur. Bæði vatnsaflsstöðvar og gufuaflsstöðvar nýta sér hringrás vatns. Í Blöndu renna fjölmargar vatnsmiklar lindár og dragár frá upptökum og til sjávar.

Við virkjunina varð til miðlunarlónið Blöndulón á húnvetnsku heiðunum og er það allt að 57 ferkílómetrar og hefur 400 gígalítra miðlunarrými. Heildarfallhæð er 287 metrar og meðalrennsli er 39 rúmmetrar á sekúndu.

Fyrst var því velt upp að virkja í Blöndu í kringum árið 1950 en á þeim tíma var byrjað að gera markvissar áætlanir um virkjun vatnsafls á Íslandi. Fóru fram umfangsmiklar rannsóknir til að finna hagkvæmustu leiðina til að virkja Blöndu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga