Fréttir | 06. október 2021 - kl. 10:47
HIP Fest á Hvammstanga um helgina

Alþjóðlega brúðulistahátíðin HIP Fest – Hvammstangi International Puppetry Festival fer fram á Hvammstanga um næstu helgi. Á hátíðina koma á þriðja tug erlendra listamanna frá átta löndum sem bjóða upp á fjölda sýninga og vinnusmiðja, auk fyrirlestra og kvikmyndasýninga með umræðum við listamennina á eftir, á meðan á hátíðinni stendur. Þetta er í annað sinn sem haldin er HIP Fest hátíð á Hvammstanga.

Frekari upplýsingar um viðburði og hátíðardagskrána er að finna á vefnum www.thehipfest.com.

HIP Fest er einstök viðbót í menningarlíf landsmanna, enda eina brúðulistahátíð landsins. HIP Fest var valinn menningarviðburður ársins á Norðurlandi vestra árið 2020 og skipuleggjandi hátíðarinnar, Handbendi – Brúðuleikhús, er núverandi handhafi Eyrarrósarinnar sem eru verðlaun veitt eru framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Brúðulistin er fjölbreytt og fornt listform sem stöðugt haslar sér meiri völl í menningarlífi landsins. Á hátíðinni má líta fjölbreyttar sýningar fyrir alla aldurshópa, sem nýta sér öll blæbrigði listformsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga