Frá Skagaströnd
Frá Skagaströnd
Fréttir | 12. október 2021 - kl. 10:18
Húsnæðisskortur tefur uppbyggingu

Í húsnæðisáætlun sem Sveitarfélagið Skagaströnd birti nýlega kemur meðal annars fram að byggja þurfi 2-4 íbúðir á ári í sveitarfélaginu fram til ársins 2026 til að uppfylla þörf fyrir nýtt íbúðarhúsnæði og koma á nauðsynlegu jafnvægi. Í áætluninni segir að sveitarstjórn hafi ekki í hyggju að ráðast í byggingu á íbúðarhúsnæði en hafi hins vegar fellt niður gatnagerðargjöld við þegar tilbúnar lóðir sem hvata til nýbygginga. Nú þegar hafi eitt einbýlishús verið byggt og búið sé að sækja um og úthluta tveimur lóðum til byggingar einbýlishúsa.

Ríkisútvarpið ræddi nýlega við Alexöndru Jóhannesdóttur, sveitarstjóra á Skagaströnd um málefnið og sagði hún að húsnæðisskortur standi íbúaþróun og atvinnuuppbyggingu á Skagaströnd fyrir þrifum. Hún sagði að ungir Skagstrendingar sæki í auknum mæli að flytja heim og þá vanti fólk á staðinn til að sinna auknum atvinnutækifærum. „Ég held að það sé sama staða hér og á mörgum öðrum stöðum, að það stendur okkur fyrir þrifum að geta ekki veitt fólki fullnægjandi húsnæðiskost. Við getum tæplega aukið mikið við atvinnuþróun á svæðinu ef við erum ekki með húsnæði fyrir fólk til þessa að geta fjölgað þessum störfum,“ sagði Alexandra í samtali við Ríkisútvarpið.

Hún nefndi einnig að það sem dragi úr möguleikum á nýbyggingum væri áhugaleysi bankanna á að veita húsnæðislán til fólks í dreifbýli. „Það er svo sem það sem hefur verið erfiðast fyrir fólk. Það nær ekki að fjármagna ef það vill fara í einhverjar framkvæmdir. Og það er málefni sem er ekki nýtt af nálinni og eitthvað sem þarf að halda áfram að þrýsta á að taki einhverjum breytingum. Eða það séu einhver önnur úrræði fyrir fólk sem vill fara í uppbyggingu á landsbyggðinni. En það er ekki greiður aðgangur að fjármagni, það er alveg ljóst.“

Sjá nánari umfjöllun á vef Ríkisútvarpsins.

Tengd frétt:
Skagaströnd gefur út húsnæðisáætlun

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga