Ólafur Davíðsson ásamt Huldu Stefánsdóttur og Valtý Stefánssyni. Myndin er úr Sögu Menntaskólans á Akureyri 1880-1980.
Ólafur Davíðsson ásamt Huldu Stefánsdóttur og Valtý Stefánssyni. Myndin er úr Sögu Menntaskólans á Akureyri 1880-1980.
Pistlar | 12. október 2021 - kl. 12:23
Sögukorn: Úr penna Huldu
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

„Rót er „súðarþak innanvert, bilið milli tveggja sperra" segir íslenska orðabókin. Fyrir mér stendur rótin sem súðin yfir hlóðunum og meira en eitt bil milli sperra. Kjötið sem átti að reykja, var fyrst hengt upp í rótina, þar sem reykurinn var mestur, en gæta varð þess að hengja það ekki beint undir strompunum svo það blotnaði ekki ef læki inn um strompinn. Þegar kjötið þótti fullreykt, var það fært til hliðar, þar sem minni var reykurinn og geymt í eldhúsinu fram á vor eða sumar.

Sperðlar og bjúgu voru einnig hengd með spotta upp á prik eða rær eins og þau komu fyrir en um magála og lundabagga gegndi öðru máli. Um þá var bundin grisja, en þeir voru líka soðnir áður en þeir voru hengdir upp."

Gömlum þjóðlífsháttum lýsir Hulda skólastjóri á Þingeyrum prýðilega í minningum sínum, eins og sjá má í upphafi þessa sögukorns.

Móðir hennar, Steinunn Frímannsdóttir frá Helgavatni varð ekkja 58 ára, átti þá eftir að lifa aldarfjórðung og flytja aftur vestur í Þing en að þessu sinni að Þingeyrum til Huldu dóttur sinnar og Jóns Pálmasonar manns hennar.

Maður Steinunnar og faðir Huldu var Stefán náttúrufræðingur Stefánsson kennari við Möðruvallaskóla og síðar skólameistari í MA, tók við af Jóni A. Hjaltalín, enskmenntuðum skólafrömuði árið 1908 og var skólameistari til æviloka 1921.

Heimilisvinur hjá foreldrum Huldu á Möðruvöllum var Ólafur Davíðsson, Hafnarstúdent og prestsonur frá Hofi, sem hún segir ítarlega frá í minningum sínum og birtir bréf hans til föður hennar og hennar sjálfrar þar sem Ólafur ávarpar hana: Elsku, besta, indæla í því fyrsta, Huldutetur í því næsta og elsku besta Hulda mín í seinni bréfunum, en það síðasta er skrifað fáum mánuðum fyrir andlát þessa skáldmælta þjóðfræðings og safnara.

Skrímsl kom upp að Svalbarði
strákur beit í vettlinginn
var á fjórum fótum.
Eg vildi´ að það kæmi ekki hér
því þá yrði ég hræddur.

Þennan samsetning sendi Ólafur vinkonu sinni, en Ólöf frá Hlöðum fékk alvarlegri vísu frá honum – og taldi stökuna eftir hann:

Græt ég lágt en hlæ þó hátt
hef ei mátt að skrifa
Nú er fátt um fínan drátt
og fremur bágt að lifa.

Ólafur var fæddur á Felli í Sléttuhlíð þar sem faðir hans, sr. Davíð Guðmundsson var áður prestur, síðar prófastur að Hofi í Hörgárdal en hann var sonur þess óstýriláta Guðmundar á Vindhæli og Ingibjargar Árnadóttur, fyrri konu Guðm. og hálfsystur Jóns Árnasonar bókavarðar.

Ólafur kenndi náttúrufræði í Möðruvallaskóla í forföllum Stefáns Stefánssonar, en hann kom heim frá Kaupmannahöfn eftir 15 ára dvöl í Höfn, próflaus.

Hulda segir fallega frá heimkomunni, þessari íslensku:„útgáfu af dæmisögunni um glataða soninn. Séra Davíð tók innilega á móti syni sínum, leiddi hann til stofu og sagði þegar inn var komið, eitthvað á þessa leið:

„Úr því að þú ert kominn Óli minn, ættum við þá ekki að fá okkur einn gráan?"

En Ólafur svaraði:

„Aldrei skyldi það skemma!" En þannig tók hann oft til orða þegar hann játti einhverju.

Svo var tekið upp léttara hjal."

Önnur vísa eftir Ólaf birtist hér – brennivínsvísa með grallarsvip:

Finnst mér lífið fúlt og kalt
fullt er þar af lygi og róg
en brennivínið bætir allt
bara ef það er drukkið nóg.

Um feðgana sr. Davíð og Ólaf segir Hulda:„að þó að þeir væru að ýmsu leyti ólíkir, hafi verið mjög kært með þeim. Mér þykir þó ósennilegt að að séra Davíð hafi að öllu leyti fellt sig við ýmis viðhorf, sem Ólafur hafði, t.d. í trúmálum. Hann var nefnilega mjög trúlítill, ef ekki trúlaus eins og margir Hafnarstúdentar frá seinni áratugum aldarinnar, sem leið(þeirrar nítjándu). Hann var eins og þeir margir á Brandesarlínunni. Vegna þess fór hann t.d. aldrei í kirkju á Möðruvöllum, þar sem faðir hans var sóknarprestur. Ef hann kom til Möðruvalla á sunnudögum, sem oft gerðist, birtist hann aldrei fyrr en eftir messu."

Eftirminnilegar og hlýjufylltar sögur segir Hulda af gömlum nágrönnum sínum í Hörgárdalnum, s.s. Gunnu minni, sem varð vinnukona á Möðruvöllum þegar Hulda var á fyrsta árinu og tókust þá strax kærleikar með þeim. En búskap Gunnu og fátækt lýsir Hulda af nærfærni, rifjar upp gestakomur um göngur og ferðir Hólasveina um Héðinsskörð vor og haust þegar Gunna og Jói maður hennar bjuggu fram í kotinu afskekkta, Baugaseli um fimm ára bil og eins gömlu fólki á hreppsframfæri sem Gunna tók og sinnti svo vel.

En Ólafur, annar tveggja sona þeirra missti heilsuna ungur, flutti suður á Reykjalund, sem var í byggingu haustið 1944 en átti þar fyrir höndum langa ævi og náði aftur nokkru starfsþreki. Hulda segir í lok þessa kafla af vinum hennar heiman úr Hörgárdalnum:

„Það er mikil gæfa að eignast góða vini, ekki síst á bernskuárum. Þegar ég hugsa til þessara gömlu vina minna, kom mér í hug orð Rollands, þess er ritaði „Jóhann Kristófer":„Það er ekkert til fegurra en heiðarlegur maður."

Gunna mín og og hennar skyldulið var með afbrigðum heiðarlegt fólk. Mörgum kann að virðast það ógæfa að vera fátækur af veraldarauði og missa heilsu á unga aldri og vissulega er það þung raun. Meiri ógæfa er þó að verða öðrum til tjóns, en slíkt var fjarri þessu fólki. Það vildi öllum vel og gott gera. Fram eftir öllum aldri varð mér hugsað til Gunnu minnar, er ég stóð á krossgötum og var ekki ljóst, hverja götuna ég átti að ganga. Ávallt var það mér til góðs, er ég valdi þann kostinn, er ég áleit, að hún hefði kosið."

Lítill eftirmáli:
Um Möðruvallaskóla og Menntaskólann á Akureyri segir Svarfdælingurinn Kristján Eldjárn:„Í bernsku minni lék mikill ljómi um Gagnfræðaskólann, skólameistarahjónin og kennarana þar. Norðlendingar litu til skólans uppi á brekkunni með stolti og virðingu. . . Skólinn hefur haft kennaralán og nemendalán svo að notuð séu orð Sigurðar skólameistara, og hann hefur ekki síst haft skólameistaralán."

Þessi orð skrifar Kristján á aldarafmæli skólans vorið 1980, en rúmlega öld áður flutti Bægisárprestur og alþm. Arnljótur Ólafsson sjö orða frumvarp á alþingi:

Á Möðruvöllum skal stofna gagnfræðaskóla.

Og var svo kosinn í 5 manna nefnd ásamt Grími Thomsen form. og Tryggva Gunnarssyni en Arnljótur var skrifari.

Möðruvallaskóli var svo hátíðlega settur 1. okt. 1880. Ræður héldu Jón Hjaltalín skólameistari, Davíð Guðmundsson prófastur á Hofi og Arnljótur prestur Ólafsson á Bægisá, en til skólans voru komnir 36 lærisveinar þó eigi væru tilbúin nema 25 uppbúin rúm.

En til skólans kom Stefán faðir Huldu árið 1887, varð vinsæll kennari og traustur ráðgjafi og samstarfsmaður Hjaltalíns skólameistara en tók við starfi hans haustið 1908 eftir andlát Jóns og sinnti því embætti til eigin dánardægurs 1921.

Höfundur minningabókarinnar, Hulda Árdís Stefánsdóttir er fædd 1897.

Annar eftirmáli:
Æviminningar, sögur úr bernsku, jafnvel ljóð geta orðið okkur sendibréf sem svara má eins og öðrum bréfum – eða þá láta það ógert, en stundum ber ég bókmenntir okkar á tuttugustu og fyrstu öldinni saman við þær sem birst höfðu á dögum Fjölnismanna. Ekki er líku saman að jafna eða ritföngum, boðleiðum og menntun sem nútíminn býður okkur.

Þeim svall líka móður í brjósti yfir sinnuleysi og fátæki samtímamanna sinna, en skröfuðu og  skrifuðu, Tómas ferðaðist, skuldir söfnuðust en sömuleiðis ljóðin Jónasar og Fjölnir ýtti við.

Meira efni af Hulduslóðum:
Náttúru- og þjóðfræðingurinn Ólafar Davíðsson: https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/thjodsagnafraedingurinn-olafur-davidsson
Saga MA: https://baekur.is/bok/000339641/Saga_Menntaskolans_a_Akureyri
Jón A. Hjaltalín skólastjóri Möðruvöllum: https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=305
Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur I Bernska Rv. 1985

Ingi Heiðmar Jónsson
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga