Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 14. október 2021 - kl. 10:31
Góða hugmyndir og gagnlegar ábendingar

Menningar-, tómstunda- og íþróttanefnd Blönduósbæjar hefur lagt fram áherslur sínar fyrir fjárhagsáætlunargerð næsta árs og voru þær kynntar á fundi sveitarstjórnar í vikunni. Í þeim er að finna margar áhugaverðar hugmyndir og gagnlegar ábendingar um það sem betur mætti fara í sveitarfélaginu.

Í áherslum nefndarinnar er m.a. minnst á félagsmiðstöðina Skjólið og bent á að leggja þurfi ríka áherslu á að endurbæta húsnæði þess. Kurlið á sparkvellinum við Blönduskóla er einnig nefnt og það sagt til mikils ama og því sé kominn tíma til að skipta um það til að bæta aðstæður vallarins. Þá er bent á að mikilvægt sé að lagfæra göngustíga, gangstéttir og gangstéttakanta sveitarfélagsins auk þess að kortleggja og gera þau kort aðgengileg fyrir íbúa sveitarfélagsins og ferðalanga.

Nefndin telur að setja þurfi meira fjármagn í leikjanámskeið sem standa yfir sumartímann til þess að hægt sé að gera starfið enn betra. Þá væri heilsuvöllur innan sveitarfélagsins skemmtileg og góð viðbóta sem og ungbarnaleikvöllur, til að koma til móts við foreldra í fæðingarorlofi sem og aðra sem vilja nýta sér slíkan leikvöll.

Aðrar áherslur sem nefndar eru:

  • Íþróttasvæði/fótboltavöllur - Nefndin telur það vera til betrumbóta ef að Blönduósbær myndi setja niður gróðurbelti meðfram Holtabraut til að mynda skjól fyrir íþróttasvæðið. Svæðið er opið og vindasamt og myndi gott skjólbelti með hávöxnum trjám bæta svæðið til muna.
  • Fjallahjólastígar - Fjallahjólreiðar eru sífellt að vaxa í vinsældum hér á landi og telur nefndin að slík braut væri góð viðbót við íþrótta- og tómstundalíf sveitarfélagsins auk þess að vera aðdráttarafl fyrir ferðalanga.
  • Stígur í kringum vötnin í vatnahverfi - Vatnahverfi er frábær útivistarparadís sem væri hægt að nýta miklu betur. Nefndin telur að það væri góð byrjun að gera stíginn í kringum vatnið aðgengilegri og betri.
  • Danskennsla - Eitt af því sem að vantar í íþróttalíf Blönduósbæjar, sem er samt gott og fjölbreytt, er danskennsla. Það væri frábært skref hjá sveitarfélaginu að reyna að búa til tækifæri fyrir fólk að stunda dans þó svo að það væri ekki nema 2-3 vikur á ári.
  • Fræðsla og fyrirlestrar - Seinustu tvö ár hefur ekki verið hægt að vera með fræðslu eða halda fyrirlestra vegna Covid-19. Það er því uppsöfnuð þörf í samfélaginu öllu fyrir alls konar skemmtilegri fræðslu og fyrirlestrum.
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga