Mynd: ruv.is
Mynd: ruv.is
Fréttir | 15. október 2021 - kl. 09:42
Flestir vilja að seinni talning gildi

Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup finnst flestum landsmönnum að síðari talningin á atkvæðum í alþingiskosningunum í Norðvesturkjördæmi eigi að standa. Gallup lagði fjóra kosti fyrir svarendur, að láta fyrri talningu atkvæða gilda, seinni talningu gilda, kjósa aftur í Norðvesturkjördæmi eða kjósa á ný á landinu öllu. Ekki var afgerandi stuðningur við einn kost en flestir, eða 37%, voru á því að síðari talningin ætti að gilda.

Næst flestir, eða 28% vildu láta fyrri talninguna gilda. Litlu færri eða 24%, sögðust vilja aðra kosningu í Norðvesturkjördæmi og 12% vildu láta kjósa aftur á landinu öllu.

Konur voru frekar hlynntar því að fyrri talningin ætti að gilda. Langstærstur hluti kjósenda Sjálfstæðisflokks vill láta síðari talningu standa. Meirihluti kjósenda Framsóknarflokks er á sömu skoðun sem og 40% kjósenda Vinstri grænna.

Öðru máli gegnir hjá kjósendum annarra flokka. Kjósendur Viðreisnar og Miðflokks eru frekar hlynntir því að láta fyrri talninguna gilda á meðan kjósendur Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins velja helst að kosið verði aftur í Norðvesturkjördæmi. Mestan vilja til að kjósa aftur á landinu öllu er að finna hjá kjósendum Sósíalistaflokksins. Sagt er frá þessu á vef Ríkisútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga