Fréttir | 22. október 2021 - kl. 09:26
Fimm framúrskarandi fyrirtæki í Húnavatnssýslum

Fimm fyrirtæki í Húnavatnssýslum eru í úrvalshópi fyrirtækja sem uppfylla ströng skilyrði greiningar Creditinfo á framúrskarandi fyrirtækjum árið 2021. Þrjú þeirra eru staðsett á Hvammstanga; Sláturhús KVH, Kaupfélag Vestur-Húnvetninga og Meleyri, og tvö á Blönduósi; Ámundakinn og Ísgel. Á Norðurlandi er að finna rúm níu prósent fyrirtækja sem sæti eiga á lista Creditinfo, alls 78 fyrirtæki. Þarf af eru 18 á Norðurlandi vestra og hafa fjögur ný fyrirtæki í landshlutanum bæst við listann.

Sé horft til sex efstu sætanna á Norðurlandi vestra þá skipa þau Kaupfélag Skagfirðinga (sem er í 10. sæti á heildarlistanum), FISK-Seafood (24. sæti), Dögun ehf. (100. sæti), Steypustöð Skagafjarðar (129. sæti), Steinull (156. sæti) og Vörumiðlun (190. sæti). Öll eru fyrirtækin staðsett á Sauðárkróki.

Í ár skipa 853 fyrirtæki lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki en hann byggist á rekstri og fjárhagsstöðu fyrirtækjanna á árinu 2020. Þetta er tólfta árið í röð sem Creditinfo tekur saman listann en fyrirtækin þurfa að uppfylla fjölmörg skilyrði til að fá að bera þennan eftirsótta titil. Ámundakinn hefur undanfarin átta ár verið á listanum.

Rekstur sem byggir á traustum stoðum
Fyrirtækin sem komast í úrvalshóp Creditinfo sýna stöðugleika í rekstri og skapa þannig verðmæti og störf. Þau standa á traustum stoðum og eru því ekki líkleg til að valda samfélaginu kostnaði. Til að komast í hópinn þarf að uppfylla ýmis skilyrði, m.a. að hafa skilað ársreikningi til RSK síðastliðin þrjú ár og að rekstrarhagnaður hafi verið jákvæður þrjú ár í röð. Þá þarf eiginfjárhlutfallið að hafa verið 20% eða meira og eignir 100 milljónir eða meira að meðaltali þrjú rekstrarár í röð. Aðeins 2% fyrirtækja á Íslandi komast í úrvalshóp framúrskarandi fyrirtækja 2021.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga